Stjórnmál

Sósíalistar vilja leiðrétta skammarlega lága fjárhagsaðstoð þeirra sem minnst mega sín

By Miðjan

July 25, 2023

Á síðasta fundi borgarráðs lagði fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands fram tillögu um að grunnfjárhæðir fjárhagsaðstoðar hækki sjálfvirkt í takt við vísitöluhækkanir.

Fjárhagsaðstoð er fyrir einstaklinga og fjölskyldur sem geta ekki séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Markmiðið með aðstoðinni er að stuðla að því að fólk geti komist af og framfleytt sér. Þó er staðan sú að langur tími líður á milli þar til aðstoðin er hækkuð. Þessu vilja sósíalistar breyta.

Trausti Breiðfjörð Magnússon, fulltrúi sósíalista, lagði fram þessa tillögu á fundi borgarráðs, þann 13. júlí sl:

„Borgarráð samþykkir að komið verði á laggirnar sjálfvirkum leiðréttingum á grunnfjárhæðum fjárhagsaðstoðar. Annars vegar er sú breyting lögð fram að grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar sé leiðrétt mánaðarlega í takt við neysluvísitölu, þar sem útgjöld íbúa hækka mánaðarlega, m.a. húsaleiga. Hins vegar er lagt til að upphæðin sé leiðrétt árlega í takt við launavísitölu, ef hún hefur hækkað umfram neysluvísitölu, svo fjárhagsaðstoðin dragist ekki aftur úr launaþróun.“