Sósíalistar náðu hreinum meirihluta
Það er gaman að lesa Staksteina dagsins. Víst er að þeim sem skrifaði þá var ekki skemmt: Sósíalistaflokkurinn stóð vörð um háskattastefnuna í borgarstjórn í vikunni og lagði til að borgarfulltrúar legðu fyrir stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga „tillögu um álagningu útsvars á fjármagnstekjur“.
Í tillögunni komu fram áhyggjur af því að á fjármagnstekjur væri ekki lagt útsvar og því þyrfti að fá Samband íslenskra sveitarfélaga til að beita sér fyrir því að Alþingi heimilaði slíka skattheimtu.
Aðrir sósíalistar í borgarstjórn tóku undir tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins og vísuðu því til borgarráðs til nánari skoðunar.
Áhugavert er að sjá að í þessum skattahækkunarhópi eru ekki aðeins borgarfulltrúar yfirlýstra vinstriflokka á borð við Samfylkingu og Vinstri græna, heldur einnig fulltrúi Pírata, sem þykjast stundum vera eitthvað annað en hefðbundinn vinstriflokkur, og fulltrúi Viðreisnar, sem lætur líka stundum eins og flokkurinn sé annars staðar á hinu pólitíska litrófi.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins voru á hinn bóginn andvígir tillögunni og bókuðu að þeir legðust „alfarið gegn hugmyndum um skattahækkanir, enda eru skattar í Reykjavík í hæstu hæðum.“
Þar kom einnig fram að komið væri „að þolmörkum fyrirtækja og heimila í borginni hvað varðar skatta og gjöld,“ sem var fjarri því ofmælt.