Sósíalistar mælast inn í borgarstjórn í könnun Félagsvísindastofnunar sem Mogginn birti í morgun og eru sá flokkur sem hefur aukið mest fylgi sitt frá síðustu könnun. Sósíalistar mælast með 3,9% nú en voru með 1,8% í síðustu könnun Félagsvísindastofnunar, sem orðin er tæplega mánaðargömul.
Ef tekið er saman hvaða flokkar hafa bætt mest við sig í kosningabaráttunni samkvæmt Féló þá eru sósíalistar efstir með 2,1 prósentustig, þá Samfylkingin með 1,3, Píratar með 1,2 og aðrir minna. Þeir flokkar sem eru að tapa fylgi í kosningabaráttunni eru VG sem hefur misst 2,3 prósentustig og Sjálfstæðisflokkur sem hefur misst 1,0.
Sósíalistar eru eini nýi flokkurinn sem nær inn manni samkvæmt könnuninni og sá nýrra flokka sem mælist með lang mest fylgi, 3,9% Næstir koma Kvennahreyfingin og Karlalistinn með 0,9%. Afar ólíklegt er úr þessu að nokkur hinna nýju lista nái að lyfta sér svo upp að þeir komist að. Samanlagt fylgi þessara flokka (Kvennahreyfingar, Karlalista, Höfuðborgarlista, Borgarinnar okkar, Íslensku þjóðfylkingarinnar, Alþýðufylkingarinnar og Frelsisflokksins) er 4,2%. Þau atkvæði myndu falla dauð samkvæmt könnuninni og einnig 3,4% Flokks fólksins, sem ekki næði inn manni. Það væru því samanlagt 7,6% atkvæða sem ekki ættu sér fulltrúa í borgarstjórn.
Framsókn stendur tæpast þeirra flokka sem koma manni inn. Framsókn fær 3,6% samkvæmt könnuninni og síðasta fulltrúann inn í borgarstjórn. Sósíalistar eru því stærri en allir nýir flokkar samkvæmt þessari könnun og einnig stærri en tveir þingflokkar: Flokkur fólksins og Framsókn.
Viðreisn mælist með 4,9% og Miðflokkurinn með 6,5% og eru báðir flokkar heldur að missa vind úr seglunum.
Meirihlutaflokkarnir mælast nú með 47,2% fylgi samanlagt en halda meirihluta borgarfulltrúa vegna dauðra atkvæða. Samfylkingin fær 31,8%, sama og í kosningunum 2014, og átta fulltrúa, Píratar 8,0% (+2,1 frá kosningum) og tvo fulltrúa og VG 7,4% (–0,9 frá kosningum) og tvo fulltrúa.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 24,8% og sjö fulltrúa, nánast það sama og í kosningunum 2014.
Breytingin frá kosningunum 2014 eru þær helstar að Björt framtíð hverfur og Framsókn minnkar. Í stórum dráttum færist það fylgi yfir á Viðreisn, Miðflokk, Sósíalista og Pírata og dreifist á flokka sem ekki ná inn manni.
Ef sókn Sósíalista heldur áfram fram á kjördag hafa þeir gulltryggt sæti fyrir Sönnu Magdalenu Mörtudóttur og gætu vonast eftir að ná inn öðrum fulltrúa; Daníel Erni Arnarssyni. Sósíalistar eru nú sjöundi stærsti flokkurinn í Reykjavík en það er ekki langt í Viðreisn og síðan Miðflokk og VG, sem allt eru flokkar sem eru að gefa eftir í kosningabaráttunni.
-gse