Sósíalistar komnir upp að Viðreisn
Gunnar Smári skrifar:
Það er í raun hlægilegt að Morgunblaðið skuli birta svona leik sem frétt.
Morgunblaðið fer í dag æði tæpa leið til að deila út þingsætum niður á kjördæmi út fá 818 svörum í könnun. Það er engin ástæða að taka nokkurt mark á þeirri leikfimi. Ef svörin dreifast jafnt á milli kjördæma má ætla að 72 svör liggi að bak við deilingu þingsæta í Norðvesturkjördæmi, minnsta kjördæminu, en 232 á bak útdeilingu þingmanna í stærsta kjördæminu, Kraganum. Hvorugt kemst nærri því að vera eitthvað sem kalla má marktæka könnun. Það er í raun hlægilegt að Morgunblaðið skuli birta svona leik sem frétt.
En könnunin sjálf á að gefa sæmilega mynd af stöðuna dagana sem hún var gerð, frá þriðjudegi í síðustu viku og fram á föstudag. Síðasta könnun MMR var gerð tíu dögum fyrr og á þessum tíu dögum hefur það gerst að Viðreisn er að missa fylgi yfir til Samfylkingar. Aðrar breytingar eru innan skekkjumarka. Búast má við könnunum frá Maskínu, Prósent og Gallup næstu daga, kannanir sem ná fram á daginn í dag, og þá kemur í ljós hvort þessi fylgisbreyting haldi.Könnun MMR sem Mogginn birtir sýnir þetta fylgi (innan sviga breyting frá kosningum):
Ríkisstjórnin:
- Sjálfstæðisflokkurinn: 24,9% (–0,3)
- Framsókn: 13,3% (+2,6)
- VG: 10,8% (–6,1)
Ríkisstjórnin alls: 49% (–3,8)
Stjórnarandstaða I (hin svokallaða frjálslynda miðja):
- Píratar: 9,8% (+0,6)
- Samfylkingin: 12,1% (óbreytt)
- Viðreisn: 8,4% (+1,7)
Stjórnarandstaða I: 30,3 (+2,3)
Stjórnarandstaða II (nýtt hægri)
- Miðflokkurinn: 6,6% (–4,3)
- Flokkur fólksins: 4,5% (–2,4)
Stjórnarandstaða II: 11,1% (–6,7)
Stjórnarandstaða III, utan þings:
- Sósíalistaflokkurinn: 8,1% (+8,1)
Eins og sést á þessu hafa Sósíalistar einir dregið til sín umtalsvert fylgi, 8,1%. Fyrir utan Sósíalista hafa aðeins Framsókn (2,6%) og Viðreisn (1,7%) bæta við sig. Sósíalistar taka til sín 2/3 hluta af því fylgi sem hreyfist.
Píratar, Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkur standa í stað en Flokkur fólksins, Miðflokkur og VG tapa og VG mestu.
Ef við deilum þingmönnum út á hefðbundinn hátt, eins og vanalega er gert út frá svona litlum könnunum, þá yrði þingheimur svona (innan sviga breyting frá núverandi þingi, þ.e. eftir flokkaflakk)
- Sjálfstæðisflokkurinn: 17 þingmenn (+1)
- Framsókn: 9 þingmenn (+1)
- Samfylkingin: 8 þingmenn (óbreytt)
- VG: 7 þingmenn (–2)
- Píratar: 7 þingmenn (óbreytt)
- Viðreisn: 6 þingmenn (+2)
- Sósíalistar: 5 þingmenn (+5)
- Miðflokkurinn: 4 þingmenn (-5)
- Flokkur fólksins: Enginn þingmaður (-2)
Flokkur fólksins hefur mælst undir 5% þröskuldinum í síðustu könnunum MMR, Gallup og Maskínu en lenti á 5% hjá Prósent. Horfurnar á að flokknum takist að ná upp fyrir þetta mark eru ekki góðar. 1,5% þátttakenda nefndu annan flokk en þessa níu og innan þess hlutfalls er Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn, Landsflokkurinn og flokkur Covid-andstöðunnar ásamt flokkum sem buðu fram síðast en hafa ekki tilkynnt um framboð nú; Björt framtíð, Alþýðufylkingin og Dögun.
Það eru því 6,0% dauð atkvæði í pottinum sem valda því að ríkisstjórnin heldur þingmeirihluta þrátt fyrir að vera með minnihluta atkvæða. Það verður hins vegar að teljast hæpið að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn sætti sig við að VG fái forsætisráðuneytið út á 7 þingmenn af 33, og helsta krafa VG í stjórnarmyndunarviðræðum er að Katrín Jakobsdóttir verði forsætisráðherra.
Reykjavíkurmódelið (SPVC), sem hefur verið draumastjórn Samfylkingar og Pírata, er aðeins með 28 þingmenn og virðust frekar að vera að fjarlægjast því þessir flokkar eru frekar að missa fylgi en sækja það.
Líklegasta ríkisstjórnin er kannski hrein hægristjórn með nauman meirihluta, 32 þingmenn, ríkisstjórn undir forsæti Sjálfstæðisflokksins með Framsókn og Viðreisn til beggja handa.
En þarna er líka ríkisstjórn leidd af Framsókn með Samfylkingu, VG, Pírötum og Sósíalistum með 54,1% fylgi og 36 þingmenn. Þá fengi Framsókn forsætisráðuneytið sem það fengi ekki í hægri stjórninni og félagshyggjuflokkarnir fengju stjórn án auðvaldsflokkanna. Þetta er líklega ríkisstjórnin sem væri líklegust að reka stefnu í takt við vilja þjóðarinnar í flestum lykilmálum.