Gunnar Smári:
Þetta er ágæt ábending, að það er ekki marktækur munur á fylgi Sósíalista og Miðflokksins. Sósíalistar ættu því að vera jafn áberandi í stjórnmálaumræðu fjölmiðla og Miðflokkurinn og Flokkur fólksins.
Ef fólk vill sjá þetta fyrir sér sem tölvuleik má segja að Sósíalistar séu komnir upp á annað borð, frá fyrsta borði nýrra stjórnmálahreyfinga og pælinga um framboð. Endakarlinn þar eru fullyrðingar um erindisleysu og sundrung, að atkvæði greidd nýjum hreyfingum séu í raun atkvæði greidd Sjálfstæðisflokknum eða guð má vita hvað. Sósíalistar hafa sigrað hann.
Á þessu öðru borði eru Flokkur fólksins, Sósíalistaflokkurinn og Miðflokkurinn, flokkar sem Maskína mælir með 4,4-6,1%. Endakarlinn þar eru fullyrðingar um jaðar-stjórnmál, að erindi flokkanna eigi ekki erindi inn í meginstraum umræðunnar. Þessi endakarl ranghvolfir augunum og tekur öllu sem sagt er sem einhverri firru (ímyndið ykkur Einar Þorsteinsson í Kastljósi að yfirheyra Ingu Sæland). Sósíalistar þurfa að sigra þennan endakarl, sanna að sósíalisminn á erindi til allra hópa, í alla umræðu, að ekki sé hægt að tala af viti um íslensk stjórnmál án þess að taka tillit til stefnu þeirra og áherslna.
Á þriðja borði er síðan flokkar með 10,9-13,7% fylgi; þ.e. Framsókn, Viðreisn, Píratar, VG og Samfylkingin. Markmið Sósíalista ætti að vera að komast þangað í vor eða snemmsumars. Endakarlinn þarna er hleypir engum fram hjá nema þeim sem talið er að eigi erindi upp á næsta borð, að skora Sjálfstæðisflokkinn á hólm í orrustu um hvar miðja íslenskra stjórnmála á að vera; hjá auðvaldinu og hagsmunasamtökum þess eða hjá almenningi, sem þarf þá að sækja vald sitt til auðvaldsins og kunna að nota það. Við skulum komast upp á þetta borð áður en við skipuleggjum hvernig við ætlum að sigra endakarlinn.
Á fjórða borði er Sjálfstæðisflokkurinn einn, með 21,8% fylgi. Við verðum að komast fram hjá þessum flokki til að vinna endakallinn á fjórða borði, auðvaldið sjálft.
En þótt gaman sé af þessum samanburði á Miðflokki og Sósíalistum, þá er rangt í greininni að sósíalistar séu óskrifað blað með enga kosningastefnu né frambjóðendur. Flokkurinn er að þessu leyti ekkert öðruvísi en hinir flokkarnir sem fæstir hafa gefið úr kosningastefnu eða stillt fram listum. Og almenn stefna sósíalista er ekkert óljósari en annarra flokka, er aðgengilegt á vef flokksins. Orðræða og áherslur sósíalista hafa komið skýrt fram í umræðunni á liðnum árum og því er flokkurinn ekki óskrifað blað. Auðvitað þarf boðskapurinn að fara víðar og vera borinn upp af fleirum, en það er alls ekki svo að þau sem segjast vilja kjósa flokkinn séu að velja hann blint. Þetta er upplýst val. Það er frekar fólkið sem ekki velur flokkinn sem hafnar honum vegna vanþekkingar, en það byggist fyrst og fremst að aðgengi sósíalista að almennri samfélagsumræðu er skertara en annarra flokka.