- Advertisement -

Sósíalistar eina aflið með orkuna í vinstrinu

Forysta miðju- og vinstriflokka er hins vegar ætíð hægrisinnaðri en kjósendahópurinn.

Gunnar Smári skrifar:

Ég hef séð hér í  hópnum hvatningu til sósíalista um að hætta við framboð til þings það sem það kynni að draga mátt úr vinstrinu. Í fyrsta lagi vill ég taka fram að ég tel sósíalista vera eina aflið eða orkuna í vinstrinu. En skoðum breytingar á fylgi frá kosningum 2017 að þessari könnun MMR.

Flokkar með rætur í sósíalískri verkalýðsbaráttu síðustu aldar:

Sósíalistaflokkur +4,3 prósentustig (róttæk verkalýðsbarátta og stéttastjórnmál)

Samfylkingin +0,7 prósentustig (ESB, evra, kerfisbreytingar innan kapítalismans)

VG –8,4 prósentustig (samstarf við auðvaldið)

Samkvæmt þessu hefur forysta VG fórnað helmingnum af fylgi sínu fyrir setu í ríkisstjórn sem hún gekk inn í gegn vilja stórs hluta kjósenda. Samfylkingin hefur ekki náð að styrkja sig í stjórnarandstöðu. Eini jákvæði punkturinn er Sósíalistaflokkurinn, nýr flokkur sem ekki hefur boðið sig fram til þings og er ekki hluti stjórnmálaumfjöllunar fjölmiðla en hefur samt haft umtalsverð áhrif á umræðuna.

Miðjuflokkar sem gætu starfað til vinstri eða hafa talað máli hinna verst settu:

Píratar +5,8 (barátta gegn spillingu)

Framsókn –2,4 prósentustig (samstarf við auðvaldið)

Flokkur fólksins –3,3 prósentustig (vinstri í velferðarmálum, hægri í efnahags- og atvinnumálum, últra hægri í trúar- og innflytjendamálum)

Píratar eru sá flokkur stjórnarandstöðunnar sem hefur bætt mest við sig, Framsókn er að skreppa saman innan ríkisstjórnar sem flokkurinn hefur haft takmörkuð áhrif á og Flokkur fólksins klofnaði á kjörtímabilinu og hefur illa tekist að fóta sig síðan.

Auðvaldsflokkar

Viðreisn +2,7% (nýfrjálshyggja án hagsmunagæslu sjávarútvegs og landbúnaðar)

Sjálfstæðisflokkur +0,4% (flokkur 0,1% landsmanna sem eiga allt og ráða öllu)

Miðflokkurinn –0,1% (flokkur sem sækir fylgi til íhaldsfólks í þjóðernis-, innflytjenda- og persónufrelsis)

Viðreisn galt afhroð eftir stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum í síðustu kosningum en hefur braggast aðeins á kjörtímabilinu. Miðflokkurinn hefur jafnað sig af fylgishruni eftir Klausturmál og krækti í tvo af þingmönnum Flokks fólksins. Eins og oft hefur gerst í sögunni eru það samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins sem tapa fylgi í ríkisstjórnum en flokkurinn sjálfur heldur fylgi. Það virðist vera að gerast á ný.

Staðan er ekki góð hjá vinstrinu. Samanlagt fylgi SVJ er bera 25,6% í þessari könnun. Miðjan er með 26,9% og saman hefur vinstrið og miðjan því rétt rúmlega helming kjósenda. Gallinn er auðvitað sá að einn vinstriflokkur og einn miðjuflokkur hafa kosið að halda helsta auðvaldsflokknum við völd, eins ekki væri fyrir löngu komið nóg af valdasetu þess arma flokks.

Auðvaldsflokkarnir hafa samanlagt 45,8% og sýnir það vel hversu hægri sinnuð íslensk stjórnmál og samfélagsumræða er. En þótt hægrið sé stórt þá er miðjan og vinstrið stærra. Forysta miðju- og vinstriflokka er hins vegar ætíð hægrisinnaðri en kjósendahópurinn og leitar oftast til hægri eftir samstarfi eftir kosningar. Þess vegna sitjum við vanalega uppi með ríkisstjórnir sem reka hægristefnu ofan í kok kjósenda. Það er stærsta vandamál íslenskra stjórnmála.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: