- Advertisement -

Sósíalistaflokkurinn vex enn

Gunnar Smári skrifar:

Það þarf t.d. ekki annað en að hósta á fylgi Miðflokksins svo sá flokkur falli af þingi og þrír þingmenn hans færðust yfir á Framsókn, Pírata og Sósíalista.

Sósíalistaflokkurinn hefur ekki mælst stærri hjá Maskínu en nú, mælist með 6,9% fylgi og stutt í fimmta þingmanninn. Það þarf t.d. ekki annað en að hósta á fylgi Miðflokksins svo sá flokkur falli af þingi og þrír þingmenn hans færðust yfir á Framsókn, Pírata og Sósíalista. Flokkur fólksins er utan þings samkvæmt þessari könnun þrátt fyrir miklar auglýsingar og kynningu á nýjum oddvitum.

Vandi hinnar svokölluðu miðju í þéttbýlinu

Þú gætir haft áhuga á þessum

Óskaríkisstjórn Viðreisnar er hrein hægristjórn einkavæðingar og áframhaldandi nýfrjálshyggju.

Sósíalistar eru því orðnir stærri en þessir tveir flokkar. Næstir eru Píratar með 9,9%, sem falla nokkuð frá síðustu könnun. Ef þessi könnun Maskínu gefur rétta mynd virðist það byrjað að gerast sem vanalega gerist í kosningabaráttu; að fylgi Pírata skreppur saman.

Mín kenning um ástæðu þessa er tvískipt. Í fyrsta lagi laðast að Pírötum fólk sem hefur misst trú á stofnanastjórnmálunum en forysta flokksins vill í kosningabaráttu sanna að hún sé stjórntæk, eins og það er kallað að aðlaga sig elítustjórnmálum stofnanaflokkanna. Þetta tvennt blandast illa saman. Síðan er það svo að Píratar eru fyrst og síðast þéttbýlisflokkur með rætur á höfuðborgarsvæðinu. Þegar kosningabaráttan út í landsbyggðarkjördæmunum þremur tekur á sig mynd og fókusinn fer yfir á hagsmunamál fólks í kjördæmunum þá kemur í ljós að Píratar standa þar veikar en hinir flokkarnir. Þetta skýrir ekki mikið fall Pírata í könnun Maskínu, úr 12,9% í 9,9%, nánast fall upp á 1/4, en líklega hluta þess.
Viðreisn á við sama vanda að stríða að þessu leyti, er þéttbýlisflokkur með veika fótfestu úti á landi. Nú fellur fylgir Viðreisnar úr 12,3% í 10,7%, líklega meðal annars vegna þess að fókusinn í kosningabaráttu er að breytast.

Þessi tveir flokkar, Píratar og Viðreisn, mynda með Samfylkingunni það sem kallað hefur verið hin frjálslynda miðja. Samanlagt ná þessir flokkar 33,6% atkvæða, falla úr 38,7% frá fyrra mánuði, eru nú bara með 22 þingmenn. Þetta eru slæmar fréttir fyrir þessa flokka, en þeir hafa allir spilað inn á verða samanlagt svo sterkt afl að þeim takist að lokka VG og Framsókn til fylgilags. En til þess þurfa þeir meira afl en þetta.
Viðreisn virðist reyndar hafa yfirgefið þessa stefna. Flokkurinn lætur sér lynda að Píratar og Samfylking reikni með sér í einskonar Reykjavíkurstjórn, en hefur síðustu mánuði ekki farið leynt með að flokkurinn vill helst í stjórn með Sjálfstæðisflokki, kannski koma inn í núverandi stjórn í stað VG. Óskaríkisstjórn Viðreisnar er hrein hægristjórn einkavæðingar og áframhaldandi nýfrjálshyggju.

Hrun hins nýja hægris

Tíðindin í þessari könnun eru staða Miðflokks og Flokks fólksins, sem báðir með minna fylgi en Maskína hefur mælt áður. Samanlagt fylgi þessara flokka var 17,8% í kosningunum en mælist nú bara 9,3%, helmingur fylgisins er farinn.

Þetta eru sigurvegarar síðustu kosninga, þá voru þetta flokkarnir sem drógu til sín svo til allt fylgi sem hreyfðist milli flokka. Kjósendur virðast ætla að fella þann dóm yfir störfum þeirra á kjörtímabilinu að tilraunin hafi mistekist.

Ég ætla ekki að benda neinum á að Sigmundur Davíð eða Inga Sæland gætu haft ása upp í erminni…

Um þetta er ekki mikið meira að segja. Ég ætla ekki að benda neinum á að Sigmundur Davíð eða Inga Sæland gætu haft ása upp í erminni, að þetta væru stjórnmálamenn sem hefðu unnið afrek áður í kosningabaráttu, en ég sleppi því þar sem ég hef ekki trú á því lengur. Mér sýnist þau frekar vera að pakka saman en að rísa upp, eins og þau séu búin að reyna allt án árangurs og skilji ekki almennilega hvers vegna byrinn er ekki með þeim.
Íhaldið dafnar við vonda stjórnarandstöðu
Íhaldsflokkarnir þrír lyftast í þessari könnun, Sjálfstæðisflokkur og Framsókn nokkuð (xD var reyndar óvenju neðarlega síðast) en VG minna. Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna er lakar en í kosningunum, VG hefur tapað meiru en Sjálfstæðisflokkur en Framsókn virðist vera að jafna sig á klofningnum þegar Sigmundur Davíð stofnaði Miðflokkinn.
Þar sem flokkarnir hafa fáa aðra kosti sem þjóna þeim munu þeir allir stefna á áframhaldandi stjórnarsamstarf, en reyna að styrkja stöðu sína innan samstarfsins. Sjálfstæðisflokksmenn vilja koma sterkir út til að geta tekið heilbrigðisráðuneytið af VG, Framsókn að styrkja stöðu sína og losna undan því að vera þriðja hól undir vagni og VG þarf að halda sjó til að missa ekki forsætisráðuneytið eða verða skipt út fyrir Viðreisn.

Ríkisstjórnin nær nú yfir 50% fylgi og er með 34 þingmenn, bætir við sig öðrum af þeim sem VG tapaði á kjörtímabilinu. Ef þetta yrði niðurstaða kosninga værum við að horfa upp á fjögur ár af því sama, stöðnun sem kölluð er stöðugleiki en merkir fyrst og fremst áframhaldandi ógnarvöld auðvaldsins.

Það vekur athygli í þessari könnun, eins og nokkrum síðustu, að Sjálfstæðisflokkurinn vex ekki þótt Miðflokkurinn tapi. Fram að því mátti sjá samhengi í fylgissveiflum þessara flokka. Nú er það fyrst og fremst Framsókn sem græðir á hruni Miðflokksins.

Þingheimur

Samkvæmt könnuninni yrði þingheimur svona (innan sviga er breyting frá fráfarandi þingi, eftir flokkaflakka nokkurra þingmanna):

Ríkisstjórnin:

  • Sjálfstæðisflokkurinn: 16 þingmenn (óbreytt)
  • VG: 10 þingmenn (+1)
  • Framsókn: 8 þingmenn (óbreytt)

Ríkisstjórnin alls: 34 þingmenn (+1)


Stjórnarandstaða I (hin svokallaða frjálslynda miðja):

  • Samfylkingin: 9 þingmenn (+1)
  • Viðreisn: 7 þingmenn (+3)
  • Píratar: 6 þingmenn (–1)


Stjórnarandstaða I:

22 þingmaður (+3)


Stjórnarandstaða II (nýtt hægri)

  • Miðflokkurinn: 3 þingmenn (–6)
  • Flokkur fólksins: Enginn þingmaður (–2)
  • Stjórnarandstaða II: 3 þingmenn (–8)


Stjórnarandstaða III, utan þings:

  • Sósíalistaflokkurinn: 4 þingmenn (+4)


Sósíalistar það eina sem er að frétta

Til að greina sveiflurnar í pólitíkinni má skoða breytingar frá síðustu kosningum:


Þessir flokkar hafa dregið til sín fylgi:

  • Sósíalistar: +6,9 prósentustig
  • Viðreisn: +4,0 prósentustig
  • Framsókn: +1,9 prósentustig


Þessir flokkar standa í stað:

  • Samfylkingin: +0,9 prósentustig
  • Píratar: +0,7 prósentustig


Þessir flokkar hafa tapað fylgi:

  • Sjálfstæðisflokkur: –1,8 prósentustig
  • Flokkur fólksins: –2,7 prósentustig
  • VG: –2,7 prósentustig
  • Miðflokkurinn: –4,2 prósentustig


Eins og sést á þessu þá taka Sósíalistar til sín meira en helminginn af því fylgi sem er að hreyfast milli flokka. Viðreisn er eini stjórnarandstöðuflokkurinn í sókn í upphafi kosningabaráttu. Að öðru leyti er Sósíalistaflokkurinn það eina sem hreyfist í íslenskum stjórnmálum.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: