Stjórnmál / „Auðvitað liggur ábyrgðin hjá Sjálfstæðisflokknum sem stýrir fimm af sex sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og meirihlutanum sem var í Reykjavík þegar samþykkt var að reisa verksmiðjuna,“ skrifar Benedikt Jóhannesson, stofnandi Viðreisnar, í Moggann.
„Því miður höfum við Íslendingar úr nógu að velja þegar flaustursleg stefna leiðir til stórútgjalda, bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Hafi einhver gleymt þeim er auðvelt að minna á nokkur dæmi: Bragginn dýri (400 milljónir), eftirgjöf lendingargjalda til WOW (tveir milljarðar) og ný gas- og jarðgerðarstöð Sorpu á Álfsnesi (5-6 milljarðar). Er þá fátt eitt talið.
Langmest er talað um það sem minnst kostaði, 400 milljóna braggann (og mest um dönsk strá á 757 þúsund krónur). Ástæðan er sú að almenningur og stjórnmálamenn eiga auðveldast með að skilja þær tölur. Ferlið við braggann var síst til fyrirmyndar, en skoðum núna Sorpuverksmiðjuna,“ skrifar Benedikt. Hann heldur áfram:
„Sorpa er rekin af sex sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Oft er spurt hver beri ábyrgðina þegar teknar eru dýrar ákvarðanir sem ekki ganga upp. Í byggðasamlögum, þar sem stjórnin er valin af sveitarfélögunum, finnst stjórnmálamönnum svarið einfalt: Enginn . Eða í versta falli hinir . Í ársreikningi 2019 getur pólitísk stjórn um óvissu vegna Covid-19, en þar er ekki orð um urðunarstöðvarklúðrið.
Enginn markaður, flaustursleg hönnun, úrelt tækni, milljarða útgjöld. Auðvitað liggur ábyrgðin hjá Sjálfstæðisflokknum sem stýrir fimm af sex sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og meirihlutanum sem var í Reykjavík þegar samþykkt var að reisa verksmiðjuna.“