Vinirnir Björn og Þröstur sátu saman og horfðu á sjónvarp á heimili Björns laugardagskvöldið 27. janúar 1973. Þröstur var tíður gestur á heimili Björns vinar síns og borðaði gjarnan með heimilisfólkinu. Um níuleytið um kvöldið bauð Björn Þresti í glas en hann átti hálfa flösku af vodka. Þeir drukku rólega fram eftir kvöldi en eiginkona Björns, Hildur, fór að sofa um klukkan tvö um nóttina. Þá fór vel á með þeim vinunum, Birni og Þresti.
Þröstur átti tvær vodkaflöskur í bíl sínum sem var utan við húsið. Hann sótti flöskurnar og juku þeir þá drykkjuna.
Farnir að kýta og stimpast
Hildur vaknaði um klukkan sex um morguninn en þá voru Björn og Þröstur farnir að kýta og stimpast. Hún reyndi hvað hún gat til að róa þá en allt kom fyrir ekki. Björn var ákveðinn í að reka Þröst út en Þröstur var ekki á því. Mesti móðurinn rann af Birni. Hann bað Hildi að spæla egg handa sér og Þresti, sem hún og gerði. Þröstur borðaði ekki eggin.
Hildur sótti tvo svefnpoka en hún ætlaðist til að Þröstur gisti hjá þeim. Hjónin reyndu að fá Þröst til að róast og fara að sofa en hann var ófáanlegur til þess enda útúrdrukkinn. Eftir smáhlé tóku vinirnir að rífast aftur og Björn vildi koma Þresti út. Hann bað Hildi að hringja á lögreglu. Hildur reyndi að hringja en enginn svaraði á lögreglustöðinni. Meðan Björn og Þröstur tókust á var Þröstur mjög æstur og hafði orð á því að Björn hefði leitað á sig kynferðislega. Hildur reyndi enn og aftur að fá þá til að vera rólega en allt kom fyrir ekki. Aftur bað Bjjörn Hildi að ná í lögreglu. Hún náði loks í lögregluþjón með því að hringja heim til hans. Að lokum kom Björn Þresti út úr húsinu en hann vildi inn aftur og barði án afláts á útidyrahurðina sem var bráðabirgðahurð og í stað glers var þar krossviðarplata.
Sótti haglabyssu
Meðan á átökunum stóð vaknaði fimm ára dóttir Björns og Hildar. Hildur fór inn í svefnherbergi til stúlkunnar. Björn kom á eftir henni og sótti þangað haglabyssu. Hildur spurði hvað hann ætlaði að gera við byssuna. Hann svaraði því til að hann ætlaði ekki að skjóta úr henni.
Tveir menn, Þórarinn og Einar, komu til bæjarins milli klukkan sex og sjö um morguninn. Einar vildi hitta Þröst og ætlaði að fá hann til að borga sér áfengisflösku sem Þröst skuldaði honum. Þeir vissu að hann var heima hjá Birni enda stóð bíll hans fyrir utan húsið.
Þegar þeir komu að húsinu sáu þeir Þröst fyrir utan og greinilegt var að á milli þeirra Björns var misklíð. Einar gekk í átt að Þresti en Þröstur bað hann bíða. Þegar Einar sneri aftur að bílnum heyrðu Einar og Þórarinn skothvelli.
Björn kom aftur inn í svefnherbergið og var nú enn æstari. Hann leitaði að skotum. Hann gekk hratt fram á ganginn og skaut af byssunni. Skotið fór í gegnum krossviðarplötuna. Aftur s k a u t Björn af byssunni. Hildur fór fram með dóttur þeirra, þá var Björn kominn inn í eldhús. Hildur fór út með barnið en þegar hún kom út úr húsinu sá hún að Þröstur lá á gangstéttinni framan við útidyrnar.
Skotinn af stuttufæri
Lögreglu og lækni bar brátt að. Við rannsókn málsins kom í ljós að Þröstur hafði verið skotinn af stuttu færi og mat læknis var að hann hefði látist samstundis.
Björn bar í fyrstu að Þröstur hefði leitað á sig kynferðislega. Hann sagði þegar lögregla kom að: „Ég skaut þetta helvítis fífl.“
Í skýrslu geðlæknis segir: „Niðurstaða geðrannsóknar er sú að Björn sé í meðallagi vel gefinn, með nokkuð veikbyggðan persónuleika, tilfinningalega frekar bældur og haldinn vanmetakennd sem eykur kvíða og óróleika og tilfinningu til líkamlegra kvartana. Skapgerðareiginleikar Björns hafa átt þátt í vaxandi áfengisneyslu sem komin er á slíkt stig að hann undir bráðum ölvunaráhrifum missir stjórn á skapsmunum sínum og gjörðum.“
Björn var dæmdur, bæði í sakadómi Skaftafellssýslu og í Hæstarétti, til að sæta níu ára fangelsisvist.
Nöfnun var breytt.