- Advertisement -

Sönn íslensk sakamál: Sífullur smáþjófur

Sigurjón Jónsson var greinilega drykkfelldur maður. Á sex ára tímabili komst hann nærri þrjátíu sinnum í kast við lögin, oftast fyrir að vera örvaður á almannafæri.

Dómur var kveðinn upp yfir Sigurjóni í aukarétti Reykjavíkur 22. október 1936.

Þráði desertskálar

Tólf dögum áður hafði hann reikað drukkinn inn á Hótel Skjalbreið þar sem hann hitti forstöðukonu hotelsins. Sigurjón taldi forstöðukonunni trú um að hann ætti rykfrakka og húfu sem voru í fatahengi hótelsins. Forstöðukonan trúði Sigurjóni og aðstoðaði hann við að klæðast frakkanum og setja á sig húfuna. Hann komst óséður í eldhús hótelsins og tók þaðan með sér þrjár desertskálar.

Eftir að hafa yfirgefið hótelið var hann fljótlega handtekinn sökum þess hversu ölvaður hann var, á almannafæri. Sigurjón var þá í rykfrakkanum, með húfuna og desertskálarnar þrjár.

Rúllupylsustuldur

Rétt rúmri viku síðar var Sigurjón aftur handtekinn sökum ölvunar á almannafæri. Lögregla sá að Sigurjón hafði á sér þrjár rúllupylsur. Lögregla spurði Sigurjón hvar hann hefði fengið rúllupylsurnar. Hann sagði að eiginkona Tómasar Jónssonar kjötkaupmanns hefði annaðhvort gefið sér þær eða hann stolið þeim. Hvort heldur var treysti hann sér ekki til að fara með, sökum þess hversu drukkinn hann var.

Kona Tómasar var spurð hvort hún hefði gefið Sigurjóni rúllupylsur, en hún kvað svo ekki vera. Hitt upplýstist að pylsurnar voru úr verslun Tómasar. Við eftirgrennslan kom í ljós að farið hafði verið inn í verslunina þá sömu nótt og Sigurjón var handtekinn.

Fimmtán rúllur af veggfóðri

Eftir þetta var Sigurjón yfirheyrður um fleira og þá upplýstist einn þjófnaður til. Nokkru áður hafði Sigurjón komið með fimmtán rúllur af veggfóðri til vinkonu sinnar og gefið henni. Þegar hún vildi vita hvar Sigurjón hafði fengið veggfóðrið sagðist hann hafa fengið það í versluninni Brynju.

Afgreiðslumaður í Brynju upplýsti að veggfóður eins og það sem Sigurjón hafði fært vinkonunni hefði ekki verið selt um nokkurn tíma í versluninni. Það hefði hins vegar verið til á lager. Auðvelt var að komast inn á lagerinn þar sem gengið var inn á hann úr porti. Þegar verslunin var opin var ávalit opið inn á lagerinn. Þegar Sigurjón var spurður hvort hann hefði keypt veggfóðrið sagðist hann hafa verið það drukkinn daginn sem hann gaf veggfóðrið að hann myndi ekki hvort hann hefði keypt það eða stolið því. Sannað þótti að Sigurjón hefði stolið veggfóðrinu. Aukaréttur Reykjavíkur dæmdi Sigurjón í hálfs árs fangelsi og Hæstiréttur staðfesti dóminn.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: