- Advertisement -

Sömu tölur, ólík sýn

- mjög ólík sýn á fjárhagsstöðu borgarinnar.

„Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2016 sýnir sterkan rekstur borgarsjóðs og B-hluta fyrirtækja borgarinnar,“ bókar meirihlutinn. „Niðurstaða A-hluta er ekki glæsileg þrátt fyrir að tekjur hafa aukist verulega og útsvar sé í hámarki,“ bókar Framsókn og Sjálfstæðismenn bóka: „Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja ekki seinna vænna að rekstur Reykjavíkurborgar, sem hefur verið í algjörum ólestri allt þetta kjörtímabil sem og kjörtímabilið 2010-2014, verði betri.“

Ólíkari verður sýnin á sama hlutinn varla.

Allir innan fjárheimilda

Skoðum aðeins hvað meirihlutanum þykir. „Lægri rekstrarkostnaður hjá borginni þar sem grunnþjónustunni er hlíft, umfram þann samdrátt í útgjöldum sem áætlun gerði ráð fyrir, er stærsti einstaki þátturinn í þessari góðu útkomu þó tekjuaukning hjálpi einnig til. Hreinar vaxtaberandi skuldir A-hluta sem og samstæðu lækka, hagræðingarmarkmið hafa náðst, öll fagsvið borgarinnar eru innan fjárheimilda og veltufé frá rekstri sem hlutfall af tekjum er 10,9% hjá A-hluta og 22% hjá samstæðu. Fjárhagsstaða borgarinnar er því sterk þó áframhaldandi aðhalds sé þörf. Einnig er fagnaðarefni að þetta er í fyrsta sinn sem ársreikningur er gefinn út á opnu sniði, ekki einungis hjá borginni heldur á landinu öllu. Stjórnendum og starfsfólki borgarinnar eru færðar þakkir fyrir þá miklu vinnu við greiningar og aðhald sem hefur staðið yfir undanfarin ár og er nú að bera ávöxt.“

Vanræksla á viðhaldi

Þá eru það borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina:

„Niðurstaða A-hluta er ekki glæsileg þrátt fyrir að tekjur hafa aukist verulega og útsvar sé í hámarki. Tap er á aðalsjóði og vegur rekstrarniðurstaða eignasjóðs upp tapið sem hefur valdið vanrækslu á viðhaldi á eignum borgarinnar. Meðan staðan er þannig er reksturinn ekki góður. Hagnaður samstæðunnar er borinn upp af B-hlutanum, vanrækslu á viðhaldi á eignum borgarinnar, skertri þjónustu, gengisbreytingum, gangvirðisbreytingum innbyggðra afleiða í raforkusölusamningum og hækkun matsbreytinga fjárfestingaeigna en 42% af hagnaðinum skýrist af matsbreytingum fjárfestingaeigna Félagsbústaða sem nam um 10,9 ma.kr. sem rekja má til hækkunar á gangvirði fasteigna félagsins.“

Sífelldur vandræðagangur

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins bókuðu:

„Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja ekki seinna vænna að rekstur Reykjavíkurborgar, sem hefur verið í algjörum ólestri allt þetta kjörtímabil sem og kjörtímabilið 2010-2014, verði betri. Allt frá árinu 2010 hefur vandræðagangur verið á rekstrinum með of slöku rekstraraðhaldi því rekstrarvandræði borgarinnar hafa verið útgjaldavandi en ekki tekjuvandi. Árið 2016 er gert upp með rekstrarafgangi og væri það ótrúlegt ef slíkt tækist ekki miðað við þá gríðarlegu tekjuaukningu sem orðin er í íslensku samfélagi og sjá má á jákvæðri rekstrarniðurstöðu sveitarfélaga um land allt. Þetta má sjá á því að tekjur A-hlutans aukast um 9,5 milljarða kr. milli áranna 2015 og 2016 og borgarbúar eru skattpíndir því útsvarið í þessu stærsta sveitarfélagi landsins getur ekki verið hærra skv. lögum. Þrátt fyrir bættan rekstur frá því sem verið hefur aukast skuldir borgarsjóðs (A-hluta) um 3 milljarða á milli áranna 2015-2016. Þegar skuldaþróun frá árinu 2010 er skoðuð má sjá að skuldir A-hluta hafa aukist úr 47,8 milljörðum kr. í 83,7 milljarða árið 2016.“

sme

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: