„Ég ásamt frábærum félögum höfum ákveðið að taka slaginn um Eflingu. Á síðustu árum tókst undir minni forystu að breyta félaginu úr duglausu bákni í fremstu baráttusamtök verka og láglaunafólks á landinu. Við gerðum það vopnuð samstöðu og þrautseigju. Við höfnuðum því að grimmilegt arðrán á vinnuaflinu væri ekkert annað en sjálfsagður hlutur. Við sýndum að standi verkafólk saman og berjist einbeitt hlið við hlið næst raunverulegur árangur í raunverulegri verkalýðsbaráttu,“ skrifar Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrverandi formaður Eflingar.
„En við vorum rétt að byrja. Og við erum ekki tilbúin að gefa baráttuna upp á bátinn. Við viljum halda áfram. Ég vona og trúi því að félagsfólk Eflingar vilji að ég og félagar mínir leiðum baráttu verka og láglaunafólks á höfuðborgarsvæðinu. Til þess þarf dirfsku, baráttuvilja, samstöðu. Þetta eigum við allt í ríkum mæli.
Ég hlakka til að taka slaginn um félagið með Baráttulistanum. Og halda svo áfram, vinnum við kosningarnar, á þeirri braut sem við höfum markað í efnahagslegri réttlætisbaráttu Eflingarfélaga.“