Fréttir

Sólveig Anna: „Þetta eru magnaðar niðurstöður“

By Ritstjórn

April 27, 2020

„Þetta eru magnaðar niðurstöður. Þær sýna ótrúlegt hugrekki, baráttuvilja og samstöðu okkar fólks. Láglaunafólk ætlar að fá viðurkenningu á því að samfélagið kemst ekki af án þeirra. Veirufaraldur eða ekki – Eflingarfólk lætur ekki kúga sig til hlýðni,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar eftir að mikill  meirihluti félagsmanna samþykkti verkfallsboðun.

Efling.is: Atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun félagsmanna Eflingar hjá Kópavogi, Seltjarnarnesbæ og fleiri sveitarfélögum er lokið. Verkfallsboðun var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða og þátttaka félagsmanna í atkvæðagreiðslunni var öflug. Mun verkfall að óbreyttu hefjast á hádegi þriðjudaginn 5. maí næstkomandi.

89% þeirra sem greiddu atkvæði voru samþykkir verkfallsboðun í grunnskólum og 88% voru samþykkir verkfallsboðun á vinnustöðum öðrum en grunnskólum. 6% þeirra sem greiddu atkvæði voru á móti verkfallsboðun bæði í grunnskólum og á öðrum vinnustöðum. Álíka fjöldi tók ekki afstöðu. Samtals greiddu 65% þeirra sem voru á kjörskrá atkvæði.

Sveitarfélögin sem um ræðir eru Seltjarnarnesbær, Kópavogsbær, Mosfellsbæ, Hveragerðisbæ og Sveitarfélagið Ölfus. Krafa félagsmanna Eflingar sem þar starfa er að gerður verði samningur um sambærilegar kjarabætur og þær sem eru í samningum Eflingar við Reykjavíkurborg og Ríkið. Engar kröfur umfram það eru gerðar.

Samninganefnd frestaði verkfallsaðgerðum meðan Kórónaveirufaraldurinn stóð sem hæst en gaf út að gengið yrði til atkvæða á ný um framhald verkfalls eftir páska. Allir félagsmenn Eflingar hjá sveitarfélögunum fimm munu leggja niður störf ótímabundið á hádegi þriðjudaginn 5. maí, sama dag og samkomubann verður rýmkað.