Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skrifar: Drífa Snædal er sönn baráttumanneskja og talsmaður fyrir hagsmunum láglaunafólks á Íslandi. Hún tilheyrir framvarðarsveit þeirra sem barist hafa ötullega gegn þeirri viðurstyggilegu framkomu sem tíðkast gagnvart viðkvæmasta hópi þeirra sem starfa hér á landi; aðflutts verkafólks sem lendir í margþættum vanda og á sér fáa málsvara.
Í þeirri baráttu sem fram undan er, þar sem verkafólk og láglaunafólk hyggst sækja efnahagslegt og samfélagslegt réttlæti sér til handa, skiptir gríðarmiklu máli hver velst til að leiða Alþýðusamband Íslands.
Ég tel að embætti forseta ASÍ eigi að vera skipað manneskju eins og Drífu; manneskju sem hefur sýnt og sannað að hún stendur með því fólki sem á undir högg að sækja á íslenskum vinnumarkaði, manneskju sem skilur að sú mikla misskipting sem nú er til staðar á Íslandi er uppspretta stórkostlegra vandamála og að ráðast verður í það mikilvæga verkefni að búa verka og láglaunafólki gott og mannsæmandi líf.
Ég lýsi því hér með yfir stuðningi við Drífu Snædal í embætti forseta Alþýðusambands Íslands.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sækist eftir að verða 1. varaforseti ASÍ og Vilhjálmur Birgisson, á Akranesi, sækist eftir að verða 2. varaforseti.