Leiðari Moggans í dag fer „hörðum“ orðum, og eflaust óverðskulduðum, um Sólveigu Önnu og Ragnar Þór. Að fá svona sneið úr Hádegismóum verður að líta á sem lofsyrði. Mogginn og útgefendur hans eru í hinu liðinu. Verjast sanngjörnum kröfum launafólks. Þegar Mogginn grípur til stóryrða í garð þeirra Sólveigar Önnu og Ragnars Þórs verður að meta það sem mikið hrósyrði. Því verr sem Mogginn skrifar um þau, því betur standa þau sig. Mogganum stendur stuggur af formönnum VR og Eflingar. Þá er ekkert til sparað. Leiðarinn endar svona:
„Aðkoma þeirra að kjaraviðræðum hefur ekki heldur stuðlað að friði á vinnumarkaði. Hvort heldur litið er til 89 manna samninganefndar Eflingar eða viðkvæmni formanns VR, sem spratt upp frá samningaborðinu fyrir hönd ríflega 30 þúsund félagsmanna af því að hann er ósáttur við peningamálastefnu Seðlabankans! Út yfir þjófabálk tók þó þegar einhver – að líkindum innan Eflingar – lak upplýsingum um kjaraviðræður Starfsgreinasambandsins við Samtök atvinnulífins til fjölmiðla í von um að gera út um þær á lokametrunum.
Slíkar skemmdarverkatilraunir varpa ljósi á þá stéttabaráttu, sem hinn róttæki armur verkalýðshreyfingarinnar vill ástunda. Þar eru pópúlískt orðagjálfur, sjálfsupphafning og átök orðin að sjálfstæðu markmiði, en hagsmunir launþega látnir lönd og leið. Íslenskt launafólk á betra skilið.“