- Advertisement -

Sólveig Anna gleðst yfir árangri Breiðfykingarinnar

Til hamingju með daginn, allar Eflingarkonur og allar verka og láglaunakonur á Íslandi. Við erum ómissandi að öllu leiti og því getur enginn lengur neitað.

Sólveig Anna Jónsdóttir.

Vinnumarkaður Fyrir næstum því nákvæmlega fjórum árum síðan undirritaði samninganefnd Eflingar kjarasamning við Reykjavíkurborg. Þá höfðum við verið í verkföllum vikum saman. Barátta Eflingar snérist fyrir og fremst um að leiðrétta laun hjá sögulega vanmetnum kvennastéttum. Það tókst okkur og hjá stórum kvennastéttum borgarinnar bættist við sérstök launahækkun. Baráttan hélt áfram og tvisvar fórum við í verkföll við Samband íslenskra sveitarfélaga til að ná sama árangri. Sem tókst, þrátt fyrir Covid-faraldur og aðrar áskoranir.

Árangur samninganefndar Eflingar og félagsfólks, sem stóð saman og gafst ekki upp, varð til þess að samkvæmt niðurstöðum Kjaratölfræðinefndar varð kaupmáttarauking launavísitölu frá mars 2019 – júlí 2023 lang mest hjá félagsfólki Eflingar hjá borginni. Sá hópur inniheldur um það bil 80% konur.

Það er mér sérlega ánægjulegt að rifja þetta upp í dag. Þrátt fyrir að ég og félagar mínir þyrftum að takast á við fjölmörg vandamál (stöðugar árásir í fjölmiðlum auðvaldsins og því sem næst linnulausan áróður og hatursfulla niðurrifsstarfsemi þeirra sem að gátu ekki sætt sig við að hafa misst félagið í hendur á einhverri uppivöðslusamri, ómenntaðri leikskólakellingu) sá ég þarna með skýrum hætti að óbilandi trú mín á baráttuvilja og styrk verkafólks til að öðlast völd og berjast fyrir betri og réttlátari tilveru átti fullan rétt á sér, og að fjöldi Eflingarfólks var mér og félögum mínum sammála um hvaða leiðir ætti að fara og hvað leggja ætti áherslu á. Það var við undirritun kjarasamnings Eflingar við Reykjavíkurborg snemma í mars árið 2020, þar sem að glæsilegt og hugrakkt Eflingar-fólk vann raunverulegan sigur, að ég í fyrsta skipti var tilbúin til að segja við sjálfa mig að kannski gæti ég orðið sæmilegur formaður stærsta félags verka og láglaunafólks á Íslandi.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna…

Um leið og ég horfi til baka og minnist þessa erfiða og frábæra tíma gleðst ég innilega yfir því að í kjarasamningunum sem að Breiðfylkingin undirritaði í gær eftir langar og strangar samningaviðræður við Samtök atvinnulífsins náðum við raunverulegum árangri við að leiðrétta kjör þess hóps sem að verst hefur haft það á íslenskum vinnumarkaði, ræstingafólks. Samið var um launaflokkahækkanir en til viðbótar við þær og almennu hækkunina, var samið um sérstaka greiðslu, ræstingaauka, til að leiðrétta kjör þessa ómissandi hóps. Niðurstaðan er mjög lík þeirri leið sem farin var í samningum Eflingar við borgina og sambandið vorið 2020. Hér er vert að taka fram að mikill meirihluti þeirra sem starfa við ræstingar eru konur eða 74,4%. Það er frábært að Efling, SGS og Samiðn hafi sameinast um þessar kröfur og ekki gefið neitt eftir. Þegar að vinnandi fólk stendur saman er hægt að ná raunverulegum árangri.

Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, sem að haldinn er hátíðlegur í dag. 8. mars, fagna ég þessum sigrum af öllu mínu verkakonu-hjarta. Ég er stolt af því að hafa ásamt félögum mínum í Eflingu og nú með félögum mínum í hreyfingu vinnandi fólks náð umtalsverðum árangri fyrir verka og láglaunakonur. Og ég veit að vegna þess að Eflingarfólk hefur sýnt og sannað á undanförnum árum að það er tilbúið til að beita árangursríkasta vopni vinnuaflsins, verkfallsvopninu, og lætur ekki berja sig til hlýðni, náðum við nú að framkvæma leiðréttingu á sögulega vanmetnasta kvennastarfinu af þeim öllum, ræstingastarfinu.

Til hamingju með daginn, allar Eflingarkonur og allar verka og láglaunakonur á Íslandi. Við erum ómissandi að öllu leiti og því getur enginn lengur neitað.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: