- Advertisement -

Sólveig Anna: „Er aldrei komið nóg?“

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Ég og Viðar sitjum nú undir því að vera ásökuð nafnlaust um ýmsa glæpi sem við höfum ekki framið. Á nákvæmlega þeim tímapunkti þegar ég og félagar mínir á Baráttulistanum höfum komið fram glæsilegt og sigurstranglegt framboð til stjórnar félagsins.

Í gær las ég um það í fjölmiðlum að „úttekt“ hefði verið gerð á kostnaði við starfsmannamál undir minni stjórn. Ég hef ekki séð þessa úttekt og svo virðist sem að hún hafi verið unnin sérstaklega á skrifstofum Eflingar að beiðni Guðmundar Baldurssonar og afhent aðeins honum af formanni og varaformanni félagsins. Samkvæmt mínum heimildum hafa aðrir stjórnarmeðlimir ekki fengið að sjá þessa svokölluðu úttekt þrátt fyrir beiðnir um það.

Og í dag heyri ég í fréttum að önnur „úttekt“ hafi leitt í ljós að starfsfólk skrifstofunnar hafi margoft leitað til mín til að segja mér af illri meðferð en ég aldrei brugðist við.

Staðreyndin er sú að þetta er einfaldlega ósatt. Í eitt skipti var komið til mín eftir krókaleiðum. Mér var sýnt samansafn að ódagsettum og nafnlausum upplifunum einhverra sem störfuðu á skrifstofunni. Ég mátti ekki halda pappírunum eftir til að gaumgæfa þá. Ég mátti ekki fá að vita um hvaða manneskjur var að ræða. Í því samansafni af upplifunum sem mér var sýnt var ekki talað um ofbeldi eða áreiti. Ég gat ekki áttað mig á því um hvað margar manneskjur var að ræða sökum framsetningar en mér taldist til að sennilega væru þetta 5 manneskjur sem þarna hefðu skrifað.

Þú gætir haft áhuga á þessum

SAJ:

Ég hef fengið vitneskju um að viðtöl á vegum Líf og sál við starfsmenn skrifstofu Eflingar eru hafin. Hef ég einnig fengið upplýst að í þessum viðtölum er sérstaklega spurt um samstarf starfsfólks við mig, jafnvel í tilvikum starfsfólks sem ekki starfaði beint undir mér.

Nú er ég í fréttum ásökuð um að hafa nært umhverfi kvenfyrirlitningar vegna vanhæfni minnar og/eða siðblindu. Lengi skal konuna reyna.

Ég vil upplýsa um að þegar ég fékk af því fregnir að verið væri að spyrja starfsfólk skrifstofu Eflingar spurninga um mig, persónuleika minn og starfshætti sendi ég þann 23. desember síðastliðinn svohljóðandi póst á þann starfsmann sem hélt utan um vinnuna og formann Eflingar:

„Ég hef fengið vitneskju um að viðtöl á vegum Líf og sál við starfsmenn skrifstofu Eflingar eru hafin. Hef ég einnig fengið upplýst að í þessum viðtölum er sérstaklega spurt um samstarf starfsfólks við mig, jafnvel í tilvikum starfsfólks sem ekki starfaði beint undir mér. Samkvæmt því sem ég hef fengið vitneskju um er ekki spurt um samstarf við aðra yfirstjórnendur sem voru eða eru á sama stað og ég var í skipuriti, ss. Agnieszku sem gegndi stöðu varaformanns á meðan að ég var formaður Eflingar.

Ekkert samband hefur verið haft við mig vegna þessara viðtala, þar sem starfsfólk er spurt um mig. Mér hefur ekki verið tilkynnt um að ég sé viðfangsefni samtalanna. Mér hefur ekki verið boðið að koma til viðtals hjá Lífi og sál og lýsa minni reynslu og upplifun í starfi sem lið í þessari úttekt, jafnvel þótt ég virðist sjálf vera sérstakt viðfangsefni úttektarinnar.

Ég verð að viðurkenna að þetta virkar afar sérkennilega á mig.

Getur þú skýrt fyrir mér hvers vegna er spurt sérstaklega um mig í þessum viðtölum, en ekki um aðra yfirstjórnendur í sambærilegri stöðu og ég var í, sem enn starfa á vinnustaðnum, og hvers vegna ég hef hvorki fengið vitneskju um þetta né boðun í viðtal?

Ég óska eftir því að þú staðfestir móttöku þessa erindis.

Afrit á Agnieszku Ewu formann Eflingar.

Kær kveðja,

Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrverandi formaður Eflingar.“

Þann 27. desember barst mér svar. Í því var sagt að ekki væri spurt út í einstaka starfsmenn og að ég væri ekki sérstakt viðfangsefni úttektarinnar. Einnig var sagt að ástæðan fyrir því að mér væri ekki boðið í viðtal væri sú að ég væri ekki starfandi á skrifstofu Eflingar lengur.

Daginn eftir eða þann 28 desember svaraði ég og sagði:

„Heimildir mínar fyrir því, að spurt hafi verið sérstaklega um mig í viðtali á vegum Lífi og sálar eru áreiðanlegar. Fyrir mér er það á tæru að Líf og sál er að vinna úttekt sem snýst (hugsanlega ásamt öðru) um að afla upplýsinga um upplifun starfsfólks Eflingar af mér og samstarfi við mig.

Ég dreg auðvitað ekki í efa að að sú lýsing sem þú gefur mér í skeyti þínu á tilgangi og skilgreiningu úttektarinnar sé samkvæmt þinni bestu vitund.

Þá vaknar sú spurning hvort að sálfræðistofan Líf og sál sé að vinna eitthvað annað verkefni en það sem beðið var um og greitt er fyrir.

Hvað sem því líður þá get ég ekki og mun ekki sætta mig við að vera viðfang úttektar meðal 50 manna hóps fyrrum vinnufélaga minna, án þess að þessi úttekt sé kynnt fyrir mér eða mér boðin þátttaka í henni. Ég get ekki séð að það standist nokkra skoðun, hvorki frá sjónarmiði persónuverndar né út frá almennu siðferði.

Ég vil hér með óska þess að brugðist verði við þessari stöðu með viðeigandi hætti.

Afrit á Agnieszku Ewu, formann Eflingar.

Kær kveðja, Sólveig Anna, fyrrverandi formaður Eflingar.“

SAJ:

Ekkert hefur verið gert af hálfu Eflingar til að hafa samband við mig til að annars vegar upplýsa mig um þær spurningar sem um mig er spurt eða hins vegar leita eftir upplýsingum frá mér um upplifun mína.

Þann 4. janúar hafði ég ekki fengið svar og sendi þá póst:

„Sæl, ég hef ekki fengið nein viðbrögð við póstinum sem ég sendi 28. desember síðastliðinn. Ég óska eftir því að ég fái staðfestingu á því að hann sé móttekinn.

Kær kveðja, Sólveig Anna fyrrverandi formaður Eflingar.“

Sama dag fékk ég svar um að pósturinn væri móttekinn.

Engin frekari viðbrögð komu frá skrifstofum félagsins. Þann 14. janúar síðastliðinn sendi ég þennan póst:

„Ég hef ekki enn fengið frá Eflingu viðbrögð við seinni pósti mínum sem innihélt alvarlegar athugasemdir varðandi úttekt þá sem unnin er/var á meðal starfsfólks skrifstofu félagsins þar sem aflað var upplýsinga um upplifun starfsfólksins af mér. Ekkert hefur verið gert af hálfu Eflingar til að hafa samband við mig til að annars vegar upplýsa mig um þær spurningar sem um mig er spurt eða hins vegar leita eftir upplýsingum frá mér um upplifun mína.

Eins og ég sagði í fyrri pósti tel ég að vinnubrögð sem þessi standist ekki sjónarmið persónuverndar hvað þá almennt samfélagslegt siðferði.

Ég legg því aftur fram kröfu mína um að brugðist verði við málinu með faglegum og siðlegum hætti.

Kveðja, Sólveig Anna, fyrrverandi formaður Eflingar.“

Og fékk sama dag þetta svar:

„Vísað er til fyrra svars um högun og framkvæmd úttektarinnar.“

Síðan þá hef ég ekkert heyrt. Mér var aldrei boðið að taka þátt í „úttektinni“ og aldrei boðið að svara þeim ásökunum sem á mig eru bornar í henni. Þrátt fyrir þá pósta sem ég sendi og þið getið lesið hér að ofan. Og í dag hef ég ekki fengið tölvupóst frá Eflingu eða símtal frá formanni eða varaformanni þar sem mér er boðið að kynna mér niðurstöður úttektarinnar. En það hefur greinilega mikið kapp verið lagt á að koma þeim beinustu leið á fjölmiðla.

Ég og Viðar sitjum nú undir því að vera ásökuð nafnlaust um ýmsa glæpi sem við höfum ekki framið. Á nákvæmlega þeim tímapunkti þegar ég og félagar mínir á Baráttulistanum höfum komið fram glæsilegt og sigurstranglegt framboð til stjórnar félagsins.

Ég veit svarið en spyr samt: Er aldrei komið nóg?


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: