„Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, staðfestir í samtali við Kjarnann að sameiginleg yfirlýsing Icelandair og Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um að ljúka deilum sín á milli hafi verið lögð fram á fundi miðstjórnar ASÍ í morgun,“ segir í frétt Kjarnans.
Samkvæmt heimildum Kjarnans var umtalsverður stuðningur við yfirlýsinguna innan miðstjórnar ASÍ, en þó ekki algildur. Aðdragandi hennar var sú að stjórnendur Icelandair Group settu sig í samband við ASÍ og Flugfreyjufélag Íslands í gær til að kanna sáttarflöt.
Þetta er merk niðurstaða. Sólveig Anna hefur barist hart gegn því að lífeyrissjóðir fjárfesti í Icelandair. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa augljóslega séð sig tilneydda til að lofa bót og betrun til að lægja öldurnar og komast hjá að framganga þeirra gagnvart flugfreyjum endi í félagsdómi. Merkilegt er ef Icelandair hafi tekist að kljúfa innstu raðir Alþýðusambands Íslands.
„Sólveig Anna staðfestir jafnframt við Kjarnann að hún hafi verið sú eina sem greiddi atkvæði gegn yfirlýsingunni en nokkrir sátu hjá. „Öllum var afstaða mín mjög skýr sem sátu þennan fund í morgun. Ég útskýrði hana að mínu viti mjög rækilega og málefnalega. Að mínu viti er verið að nota miðstjórn Alþýðusambandsins sem einhvers konar aflátsbréfa-maskínu,“ segir hún.
Sólveig Anna segir að sannleikur málsins sé augljós – þ.e. að bein lína sé á milli hlutafjárútboðs Icelandair og síðan þessarar atburðarásar. „Ef fólk er til í að gera eitthvað svona þá á það í það minnsta að segja hátt og skýrt að það auðvitað skilji og viti um hvað málið snýst,“ segir hún,“ segir í Kjarnanum.
Þar segir einnig: „Hún segir verið sé að senda skýr skilaboð þess efnis að Icelandair verði ekki lengur í þeirri stöðu að þurfa að fara fyrir Félagsdóm fyrir „eitt grófasta brot sem framið hefur verið á íslenskum vinnumarkaði“.“