Sólveig Anna skrifar:
Ég frábið mér frekari umvandanir frá manneskju sem hefur nákvæmlega enga innistæðu fyrir því að lesa mér pistilinn.
Mikið er þessi umvöndunartónn hjá fráfarandi varaformanni Eflingar þreytandi. Fátt leiðinlegra en svona smáborgaralegur paternalismi. En fyrst hún er til í að mæta enn eina ferðina í fjölmiðla til að lesa mér pistilinn ætla ég að líka að bregða mér í hlutverk umvandarans, get ekki annað:
Fráfarandi varaformaður hefði átt að sýna mér þá virðingu að svara einhverjum af tölvupóstunum sex sem ég sendi henni í nóvember síðastliðinn þar sem ég óskaði eftir því að fá að gera grein fyrir afsöng minni á fundi trúnaðarráðs. Það gerði hún ekki nema með því að segja: „Sæl, Erindi þitt hefur verið móttekið.“ Svo heyrðist ekkert meira frá „Virðaranum mikla“ í Guðrúnartúni.
Hún hefði átt að neita að taka að sér að lesa upp nafnlausan óhróður um mig á fundi trúnaðarráðs en það ætlaði hún að gera að mér fjarstaddri. Það var aðeins góðri siðferðiskennd trúnaðarráðsmeðlima að þakka að slíkur ósómi átti sér ekki stað á fundinum.
Fráfarandi varaformaður hefði átt að sýna meðlimum trúnaðarráðs þá virðingu að gera ekki tilraunir til að svipta þau mál og tillögufrelsi á fundum en það gerði hún oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, ásamt fráfarandi formanni
Hún hefði átt að sjá sóma sinn í að dreifa ekki klögubréfi um einn stjórnarmeðlim Eflingar, harðduglega og sómakæra verkakonu, á stjórnarfundi, að henni fjarstaddri svo að hún gat ekki brugðist við ásökununum eða varið sig með neinum hætti. Þessi kona fékk ekki að sjá bréfið sem öllum öðrum stjórnarmeðlimum hafði verið sýnt fyrr en á næsta fundi, en þá var það sett á skjá svo öll gætu aftur lesið það (sú sem bréfið fjallaði um þá í fyrsta skipti), og henni svo hótað því að slíkt yrði einnig gert á trúnaðarráðsfundi félagsins. (Glæpur konunnar er að vera félagi minn).
Fráfarandi varaformaður hefði átt að sýna mér þá virðingu að upplýsa mig um allar þær “úttektir” sem hún og fráfarandi formaður hafa pantað á mér og verkum mínum og fyrrum framkvæmdarstjóra, og notað sjóði félagsins til að greiða fyrir. Hún hefði átt að bjóða mér að sjá úttektirnar, bregðast við þeim og vera til svars um umfjöllunarefnin. Það gerði hún aldrei, þrátt fyrir óskir þar um. En hún tók þátt í að upplýsa fjölmiðla og/eða leka „úttektunum“ til þeirra.
Hún hefði ekki átt að leggjast svo ömurlega lágt að láta félagið senda sérstaka fréttatilkynningu til allra fjölmiðla landsins með grófum ærumeiðingum og rógburði um mig og samstarfsmann minn, í miðri kosningabaráttu þar sem hún sjálf hafði gefið kost á sér sem formannsefni.
Fráfarandi varaformaður hefði átt að svara póstinum sem ég sendi henni og fráfarandi formanni þann 3. mars, þar sem ég óskaði þess að félagsfundur yrði boðaður 7. mars, svo að félagsfólk gæti einfaldlega fengið að kjósa um hvort virða ætti ályktun trúnaðarráðs um að flýta aðalfundi eða ekki. Það gerði hún ekki; ég fékk svar 10. mars frá fráfarandi formanni sem sagðist ætla að fjalla um ósk mína á stjórnarfundi þann 15. mars.
Hún hefði átt að sjá sóma sinn í því að virða ályktun trúnaðarráðs um að flýta ætti aðalfundi svo að nýkjörin forysta, með afdráttarlaust umboð félagsfólks gæti tekið við stjórnartaumunum. Það gerði hún ekki en kaus að elta fráfarandi umboðslausan formann í ömurlegri vegferð sem snerist ekki um neitt annað en að leita í örvæntingu að skít til að kasta í mig og Viðar Þorsteinsson.
Fráfarandi varaformaður hefði átt að sýna félagsfólki Eflingar og þeirra grafalvarlegu efnahagslegu réttlætisbaráttu þá sjálfsögðu virðingu að reyna að koma í veg fyrir að umboðslaus fráfarandi formaður afhenti lögmanni út í bæ ALLAR fundargerðir síðustu ára, án þess að hafa til þess heimild frá stjórn félagsins. Það gerði hún ekki, heldur kaus að taka þátt í skemmdarverka-starfsemi þeirri sem fráfarandi umboðslaus formaður hefur fyrst og fremst eytt tíma sínum í síðustu vikur og mánuði.
Ég frábið mér frekari umvandanir frá manneskju sem hefur nákvæmlega enga innistæðu fyrir því að lesa mér pistilinn.