- Advertisement -

Sögu útgerðar á Akranesi að ljúka

- formaður Verkalýðsfélags Akraness svartsýnn á áframhald starfsemi HB Granda á Akranesi. Biðlar til Alþingis.

 

Vilhjálmur Birgisson:
„…við eigum að biðla til og krefjast þess að Alþingi Íslendinga standi vörð um atvinnuöryggi fiskvinnslufólks vítt og breitt um landið.“„

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, er ekki bjartsýnn á að stjórnendum HB Granda verði snúið og fiskvinnsla á Akranesi heyr brátt sögunni til. Þetta kemur fram í ræðu sem hann hélt í gær, fyrsta maí.

Vilhjálmur rifjaði upp að árið 2002, áður en Haraldur Böðvarsson sameinaðist Granda, hafi Akranes verið þriðja stærsta verstöð landsins og á Akranesi var landað yfir 167 þúsund tonnum. „Haraldur Böðvarsson var með um 350 manns á launaskrá og greiddi yfir 2 milljarða í laun og var stærsti launagreiðandi á Norðvesturlandi,“ sagði formaðurinn.

Þráðurinn rofnar

„Því miður stefnir æði margt í að verið sé að skrifa síðasta kaflann hvað varðar vinnslu á sjávarafurðum hér á Akranesi því mér sýnist að forsvarsmenn HB Granda ætli sér að leggja niður landvinnsluna og með því mun yfir 100 ára sögu fiskvinnslu ljúka. Það er svo sorglegt ef uppundir 100 manns missa vinnuna og margir þeirra hafa helgað líf sitt fyrirtækinu og eru með tugi ára í starfsreynslu. Það er stórhættulegt ef þessi gríðarlega þekking hjá þessu fiskvinnslufólki tapast og þráðurinn rofnar hvað varðar vinnslu á sjávarafurðum hér á Akranesi  En við megum ekki gefast upp og við eigum ekki að láta þessa græðgispunga komast upp með þetta.“

Ákall til Alþingis

„Já, við eigum ekki að gefast upp,“ sagði Vilhjálmur, „…við eigum að biðla til og krefjast þess að Alþingi Íslendinga standi vörð um atvinnuöryggi fiskvinnslufólks vítt og breitt um landið og ég vil minna þingheim á 1. grein um stjórn fiskveiða en þar segir orðrétt:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Kæru félagar og vinir ég tel einungis eitt geta bjargað okkur frá því að fjöreggi okkar Skagamanna blæði endanlega út en það er að Alþingi setji lög sem kveði á um byggðarfestu á aflaheimildum og farið verði þannig eftir 1. gr. um stjórn fiskveiða þar sem fram kemur að nytjastofnar eigi að treysta atvinnu og byggð í landinu,“ sagði Vilhjálmur.

-sme

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: