- Advertisement -

Söfnunarféð fer ekki skimun

Margt af annarri starfsemi félagsins er þarft verk, hvort sem fólk áttir sig á að það er að styðja slíkt eða ekki.

Gunnar Smári skrifar:

Kristján Oddsson, fyrrverandi yfirlæknir leitarsviðs Krabbameinsfélagsins, sagði í Kastljósi að ekkert af söfnunarfé Krabbameinsfélagsins færi í skimun, þótt styrktaraðilar gætu staðið í þeirri trú. Nýjasti ársreikningurinn á netinu er frá 2018. Þar kemur fram að ríkið og notendur borga 537 m.kr. fyrir skimun en auk þess hefur félagið 438 m.kr. í tekjur af fjáröflun og 103 m.kr. í aðrar tekjur. Miðað við orð Kristjáns fara þessar tekjur, samtals 541 m.kr., í annan rekstur sem er margskonar samkvæmt ársskýrslu.

Það er þekkt að fyrirferðamikil fjáröflun eins og Krabbameinsfélagið stendur í getur dregið til sín stóran hluta af söfnunarfénu (hönnun, auglýsingagerð, birtingar o.fl.). Mottumars, Bleika slaufan og Karlaklefinn eru allt dýrar herferðir, en ómögulegt er að lesa hversu dýrar út frá reikningum félagsins.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Í ársskýrslu fyrir 2019 kemur fram að félagið hafi lagt 328 m.kr. til skimunar á árunum 2014-2019 eða um 55 m.kr. á ári. Í fyrra lagði félagið til 11 m.kr. Til tilraunaverkefnis um gjaldfrjálsa skimun fyrir konur sem komu í fyrsta sinn, og verður að ætla að sú fjárhæð sé inn í þessum 328 m.kr.

Ef við berum þetta saman við ársreikninginn 2018 þá má ætla að sjúkratryggingar og notendur hafi borgað um 537 m.kr. fyrir skimun og félagið sjálft um 55 m.kr., samtals 592 m.kr. Afgangurinn af söfnunarfénu, 383 m.kr. og allar aðrar tekjur, 103 m.kr., fara þá í annað en skimun.

Kristján Oddsson lét í það skína að þau sem leggðu Krabbameinsfélagi væru fyrst og fremst að styðja skimun. Ef það er rétt, þá á segja að um 10% af sjálfsaflafé félagsins fari í skimun en 90% í annað. Margt af annarri starfsemi félagsins er þarft verk, hvort sem fólk áttir sig á að það er að styðja slíkt eða ekki, en þegar ársskýrsla félagsins er skoðuð er augljóst að reksturinn er svolítið uppskrúfaður, það er nokkur sláttur á þessu öllu og margt fólk sem vinnur við eitthvað sem fólk tengir kannski ekki skimun þegar það kaupir bleika slaufu eða sokkapar í mars.

Ég þekki aðeins til SÁÁ, sem veltir viðlíka fjárhæð og Krabbameinsfélagið. Þar var sjálfsaflaféð mun lægra en hjá Krabbameinsfélaginu en það fór að lang mestu leyti beint í meðferðina. Það væri fróðlegt að bera betur saman þessi félög, skoða fjölda stöðugilda við almennan rekstur utan heilbrigðisþjónustu. Mig grunar að þessi félög séu eðlisólík.

Það má líka velt fyrir sér hvort ekki sé snjallara að færa þessa skimun undir ríkið. Almenningur myndi þá borga 55 m.kr. meira í skatta en gæti varið því fé sem það gefur í safnanir Krabbameinsfélagsins í annað. Kannski er þetta fyrirkomulag, að vanfjármagna heilbrigðisþjónustu frá ríkinu en standa svo í kostnaðarsömum fjáröflunum til að bjóða upp á þjónustuna, of dýrt og vitlaust kerfi til að verja það.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: