Fréttir

SÖFNUN – Vinkonur safna fyrir Evu sem berst við illvígt krabbamein: „Við viljum fjármagna eftirminnilega brúðkaupsveislu“

By Ritstjórn

May 21, 2022

Eva Berglind berst nú við agressívan og erfiðan sjúkdóm, meinvörp í höfði sem greindust í byrjun mánaðar. Áður hafði hún barist hetjulega við illvígt brjóstakrabbamein, þá gengin 17 vikur með sitt annað barn og aðeins þrítug að aldri.

Vinkona Evu Berglindar, Íris Ósk Egilsdóttir, kallar eftir stuðningi við vinkonu sína sem berst hetjulega með 5 ára og 18 mánaða gömul börnin sér við hlið.

„Nú köllum við eftir smá stuðning við konuna okkar Evu Berglindi og fjölskyldu hennar. Eva Berglind er ein mögnuð kona sem hefur verið úthlutað stóru verkefni í lífinu. Hún blæs fast á móti og tekur verkefninu með baráttuvilja.

Sumarið 2020 greinist Eva með sjaldgæft og agressívt brjóstakrabbamein, þá gengin 17 vikur á leið með sitt annað barn, aðeins 30 ára gömul. Hún barðist af krafti fyrir sig, fjölskyldu sína og ófætt barn. Þann 19. Nóvember 2020 eftir öfluga lyfjameðferð fer hún í brjóstnám og keisaraskurð í sömu aðgerðinni. Þau bjóða velkomna eina hrausta og ákveðna unga dömu í heiminn. Í framhaldinu tekur við strangt bataferli og umönnun nýbura í ofanálag.

Á þessum tímapunkti og fram til þessa eru engin merki um sjúkdóminn. Eva vinnur markvisst í að byggja sjálfa sig upp á líkama og sál á þessu tímabili.Fimmtudaginn 5/5 leggur lífið fram næsta verkefni. Þá hefur sjúkdómurinn tekið sig upp með meinvörpum í höfði. Enn og aftur tekur Eva fram baráttuhanskana, nú með 5 ára og 18 mánaða á hliðarlínunni.

Engin orð geta lýst því hvernig er að fylgjast með henni takast á við þetta. Hún hefur leyft verkefninu að þroska sig sem einstakling, lært að vinna með sjálfa sig og fundið krafta lífsins. Hún miðlar sögu sinni með einstöku mildi og gegnsæi og á einhvern einstakan hátt eflir hún fólk í kringum sig með reynslu sinni og þroska. Með þessu hefur hún haft áhrif á hvern þann sem stendur henni nálægt, leitar til hennar eða hefur fylgst með henni. Hún er alltaf tilbúin að opna faðm sinn, styðja og hughreysta.

En nú er komið að okkur, leitum í okkar lífskrafta, jákvæðu orkuna í lífinu og sendum henni alla þá baráttustrauma sem til þarf að komast í gegnum þetta.Hún og maðurinn hennar eru búin að ætla sér að gifta sig í þónokkurn tíma, enda búin að vera saman í 15 ár, en ekki látið verða af því. Vegna aðstæðna ákváðu þau að drífa í því, en við vinkonur hennar fengum leyfi frá þeim til þess að skipuleggja brúðkaupsveislu þeim til heiðurs eftir tvær vikur.

Við leitum því til allra þeirra sem vilja leggja sitt af mörkum til þess að fjármagna eftirminnilega brúðkaupsveislu og/eða styðja þau fjárhagslega á erfiðum tímum. En sú fjárhæð sem safnast umfram það sem til þarf í veisluna verður fjárhagsstuðningur til þeirra. Einnig ef einhver vill leggja eitthvað annað til en fjármagn (t.d. vinnu, afslætti, skraut o.s.frv), endilega hafið samband.“

Ef þú vilt hjálpa litlu fjölskyldunni á þessum erfiðu tímum þá eru reikningsupplýsingar hér fyrir neðan:

Kennitala: 060588-2609 (Bergþór Pálsson Krüger)

Reikningsnúmer: 331-13-000425