- Advertisement -

Sofandi að feigðarósi

– …þeir sem ávallt hremma valdastólana sníða leikreglurnar þannig að afraksturinn ratar að mestu til þeirra sem mest hafa og síst þurfa á því að halda.-

Ólafur Þórarinsson.

Ólafur Þórarinsson, Labbi í Mánum, skrifaði:

Samfélag Ólíklegt þætti mér að við sættum okkur við að fótboltalandsliðið okkar skipaði óvinsælasta og slóttugasta leikmanninn sem fyrirliða, og þó hann þverbryti allar leikreglur fengi hann aldrei rauða spjaldið því hann hefði sjálfur valið dómgæsluna sem væri fjölskylda hans og nánir vinir sem litu bara í hina áttina.

Þetta látum við þó viðgangast við liðskipan í æðstu valdastofnun landsins enda eru allir sóknarleikir þeirra blekkingar og sjónarspil þar sem ein af mörgum áskorunum eru loftslags og náttúruvernd en þar dansa allir í kringum sannleikann enda valda sumar aðgerðir í þeim málaflokkum enn meiri skaða og því ljóst að enginn liðsmanna hreyfir mótbárum því það gæti ógnað stöðu hans á ríkisspenanum.

Þessir loddara valsa um eigur okkar sem sínar.
ÓÞ.

Þessir loddara valsa um eigur okkar sem sínar, og ráðstafa þeim að vild þvert á vilja þjóðarinnar og munu því aldrei bregðast við þeirri staðreynd að við verðum að gjörbreyta áherslunum og finnum gáfulegri stefnumál en að auka stanslaust framleiðslu á rusli og drasli til að sjá hærri hagtölur byggðar á sandi.

Þannig er dekrað við hégómann og gegndarleysið sem liggur meðal annars í skemmtiferðum um hnöttinn þveran og endilangan ýmist með flugi eða skipum sem eiga stóran þátt í þeirri vá sem steðjar að okkur. Þetta vill hins vegar engin horfast í augu við en tönglast þess í stað á orkuskorti og þá er náttúrunni fórnað til að halda hringavitleysunni gangandi og jörð, haf og andrúmsloft fyllt af óþverra svo að lokum köfnum við úr frekju.

Hvert mannsbarn ætti að sjá að jörðin mun aldrei þola þá áníðslu sem þarf til að fullnægja þessum fáránlegu kröfum dekurdýranna og þó er það sorglegasta að þeir sem ávallt hremma valdastólana sníða leikreglurnar þannig að afraksturinn ratar að mestu til þeirra sem mest hafa og síst þurfa á því að halda.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: