Sofandaháttur og ábyrgðarleysi
Eflaust er búið að segja og skrifa flest sem segja þarf um fyrirhugaða virðisaukaskattshækkun á ferðaþjónustu. Ég er stöðugt með óbragð í munninum útaf þessu og mig skortir orð til að lýsa því hversu ömurleg mér finnst framganga og málflutningur ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Leikhús fáránleikans, þar sem hver froðukenndi frasinn rekur annan, hver rangfærslan aðra.
Röksemdirnar byggðar á sandi. Engin viðleitni til að nýta sér þekkingu sem er ríkulega til af. Enginn vilji til að hlusta á reynslu þeirra sem hana hafa. Bara ætt áfram með hroka og skeytingarleysi.
Ég hef starfað við íslenska ferðaþjónustu á mörgum mismunandi vígstöðvum í meira en 25 ár. Hún hefur vaxið og þróast um landið allt, án teljanlegra ríkisafskipta, hvað þá ívilnanana eða niðurgreiðslna. Ríkið hefur ekki heldur skipt sér nógu mikið af því sem því bar, t.d. hvað varðar grundvallarstefnumótun og skipulag. Þar hefur ríkt sofandaháttur og ábyrgðarleysi.
Ríkið hefur þó aldrei fyrr stigið fram með svo íþyngjandi og eyðileggjandi hætti. Ég er mjög uggandi fyrir hönd þessarar atvinnugreinar. Fyrir hönd allra fyrirtækjanna sem fólk eins og ég þú rekur og á afkomu sína undir. Fyrir hönd starfsmanna þeirra. Ég hef áhyggjur af landsbyggðinni, fólkinu og fjárfestingunum þar.
Það sem er þó verst og í raun ÓÞOLANDI er að það er heimatilbúinn óskundi sem veldur þessu. Hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu er einhver versta hugmynd sem fram hefur komið og auðvitað hrikalegt til þess að vita að misvitrir stjórnmála- og embættismenn – sem meira og minna af tilviljun hafa lent þar sem þeir eru í dag, og geta verið hættir á morgun – geti tekið svona gríðarlega stórar, umdeildar, afdrifaríkar og víðtækar ákvarðanir. Og bara af því bara. Það er síðan spurning hver ber ábyrgðina ef allt fer á versta veg. Verður það Bjarni Ben? Benedikt? Þórdís Kolbrún? Örugglega ekki, en það er ljóst að skömmin verður þeirra.
Bjarnheiður Hallsdóttir.