Planið er að innvígðir nái Icelandair án þess að leggja krónu til félagsins.
Gunnar Smári skrifar:
Icelandair fékk 1.116 m.kr. út úr hlutabótaleiðinni og svo 2.875 m.kr. styrk til að segja starfsfólkinu upp, samtals rétt tæplega 4 milljarða króna (3.991 m.kr.). Alþingi hefur samþykkt að veita félaginu 15.000 m.kr. ríkisábyrgð og ríkisbankarnir hafa sölutryggt 6.000 m.kr. af hlutafjárútboðinu og munu sitja uppi með það og tapa ef félagið nær sér ekki á flug. Starfsfólkið hefur tekið á sig launalækkanir og nú liggur SA á fulltrúum sínum í lífeyrissjóðunum og segir þeim að kaupa 14.000 m.kr. hlut í félaginu.
Lánardrottnar hafa ekki afskrifað krónu og ekki breytt neinni skuld í hlutafé. Þessi stuðningur almennings, um 39 milljarðar króna (hálft hátæknisjúkrahús) fyrir utan fórnir starfsfólksins, er því fyrst og frest til að verja lán og skuldbindingar. Það mætti nota þetta fé til að byggja upp skuldlaust fyrirtæki utan um þann flugrekstur sem landsmenn þurfa. Og á nýrri vélum en flota Icelandair, sem er sá elsti í okkar heimshluta.
En hvers vegna er þessi leið farin? Planið hjá stjórnendum Icelandair, forystu SA og Sjálfstæðisflokksins og fulltrúum þeirra í lífeyrissjóðunum, fólksins í bankasýslunni og ríkisbönkunum (allt meira og minna sama klíkan) er að núverandi hlutafé fari niður í 5,4 milljarða króna (21%), lífeyrissjóðir kaupi 14 milljarða króna (55%) og ríkisbankarnir haldi á 6 milljörðum króna (24%). Ef ferðaþjónustan jafnar sig og ljóst verður að Icelandair lifir af munu ríkisbankarnir selja einhverjum innvígðum og innmúruðum hlutina sem bankarnir halda á. Verðmæti hluta mun þá vaxa og þeir sem kaupa ekki þurfa að leggja neitt fé til kaupanna heldur fá það allt að láni í ríkisbönkunum.
Þetta snýst því um að láta ríkissjóð, ríkisbanka, starfsfólkið og lífeyrissjóðina taka alla áhættu. Ef félagið lifir af mun 24% hlutur enda hjá innvígðum, sem munu eftir það stýra félaginu í skjóli þess að fulltrúar lífeyrissjóða á aðalfundi og í stjórn fylgja yfirleitt stærsta eigandanum í öllum málum. Í stuttu máli: Planið er að innvígðir nái Icelandair án þess að leggja krónu til félagsins.
(Alþingisfólk á að kalla eftir samningum Icelandair við lánardrottna. Það er stórlega grunsamlegt að þar sé ekki gert ráð fyrir neinni afskrift, í félagi sem hefur misst 85% af tekjum sínum. Getur verið að samið hafi verið um lækkun lána síðar meir, þegar félagið er komið í „réttar hendur“?)
Í dag er Icelandair í taprekstri. Kauphöllin ætti því að stöðva hlutafjárútboðið, verja almenning fyrir því á þeim forsendum að ómögulegt sé að meta félagið til fjár. Stjórnendur þess eru að selja loft. Ríkisstjórnin og Alþingi eru því ekki aðeins að verðlauna félag með ríkisábyrgð fyrir að fara gegn starfsfólkinu á sama tíma og það ver lánardrottna sína, heldur er það að styðja hlutafjárútboð sem í raun stenst ekki. Og hvetja stjórnendur lífeyrissjóð til glæfra fjárfestinga.
Allt þetta mál afhjúpar hversu spillt og sjúkt samfélag Ísland er. Það sést ekki síst á öllum þeim fjölda sem tekur þátt í að samþykkja þetta, ekki bara formlega heldur með víðáttuheimskri framgöngu hér á Facebook.