- Advertisement -

Snyrtileg orð yfir glæp

„Brotastarfsemin beinist einkum að þeim sem eru veikastir fyrir, ungu fólki og erlendum starfsmönnum í byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Markvissra aðgerða er þörf.“

Oddný Harðardóttir:
„Fyrirtækin halda eftir launum starfsmanna og styrkja þannig samkeppnisstöðu sína gagnvart öðrum fyrirtækjum sem fara að lögum. Nemar í óskilgreindu námi fá uppihald og ferðir en engin laun. Það samræmist ekki íslenskum lögum.“

„Félagsleg undirboð eru snyrtileg orð yfir þann glæp sem á sér stað þegar fólk er rænt launum sínum og réttindum,“ sagði Oddný Harðardóttir. „Því miður virðist sem slíkum ljótum málum sé að fjölga töluvert hér á landi og tengist þeim uppgangi sem er í samfélaginu, ekki síst í byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Ódýra vinnuaflinu er ætlað að auka gróða fyrirtækjanna og bæta samkeppnisstöðu þeirra. Fórnarlömbin eru oft hrædd við að tjá sig og eru í raun þau einu sem taka áhættu með glæpnum. Fyrirtækin geta illu heilli bara borgað og haldið svo áfram. Í versta falli skipta þau um kennitölu,“ sagði hún.

Hér er vitnað til þingræðu Oddnýjar.

„Ég hef rætt við eftirlitsmenn á vegum stéttarfélaga um þessi mál. Frásagnir þeirra eru sláandi. Þegar ég spurði einn þeirra hvernig félagsleg undirboð birtust á landsvæði hans sagði hann svona: Ja, það er svo sem hægt að stela peningum með margvíslegum hætti. Algengast er þó að atvinnurekendur komi sér undan því að virða kjarasamninga; greiða ekki veikindadaga, fólkið fær ekki frídaga eða lögbundinn hvíldartíma eins og því ber, hringlað er með vaktaplan þannig að vaktaálag og yfirvinna er ekki greidd, fólk er jafnvel sagt í sjálfboðavinnu.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sjálfboðaliðar verða þrælar

„Fyrirtæki, ekki síst í landbúnaði og ferðaþjónustu, hafa í auknum mæli auglýst eftir erlendum sjálfboðaliðum til starfa upp á fæði og húsnæði. Þannig koma fyrirtækin sér hjá því að greiða kjarasamningsbundin laun og þar með skatta og aðrar skyldur. Fyrirtækin halda eftir launum starfsmanna og styrkja þannig samkeppnisstöðu sína gagnvart öðrum fyrirtækjum sem fara að lögum. Nemar í óskilgreindu námi fá uppihald og ferðir en engin laun. Það samræmist ekki íslenskum lögum.

Oft vill starfsfólkið ekki tjá sig, treystir ekki yfirvöldum og er líka hrætt um fólkið sitt í heimalandinu. Einstaklingurinn sem brotið er á tekur alla áhættuna. Hann lendir í vandræðum fyrir að taka þátt í svartri starfsemi og segja frá henni, er tryggingalaus og missir vinnuna.“

Hagvöxtur byggður á svikum á svindli

„Hagvöxtur hér á landi hefur verið mikill allt frá árinu 2010 þegar við fórum að rétta úr kútnum eftir hrunið. Sá hagvöxtur og velferð Íslendinga hefði ekki orðið nema fyrir innflutt vinnuafl. Það er óþolandi að velferð okkar sé byggð að hluta til á þjófnaði þar sem fyrirtæki flytja inn fólk og stela af því laununum. Þetta getum við ekki látið óátalið og afskiptalaust. Við getum ekki látið viðgangast að hagvöxtur á Íslandi sé borinn að hluta til uppi með svikum og svindli.

Heilbrigður vinnumarkaður er undirstaða góðra samfélaga og svikin verður að stöðva hér á landi. Brotastarfsemin beinist einkum að þeim sem eru veikastir fyrir, ungu fólki og erlendum starfsmönnum í byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Markvissra aðgerða er þörf.“

Hér er unnt að hlusta á ræðu Oddnýjar:


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: