- Advertisement -

Snakillur fjármálaráðherra á Alþingi

Guðmundur Andri Thorsson.

Eftirtektarvert var hvernig Bjarni Benediktsson brást við einfaldari spurningu á Alþingi í dag. Guðmundur Andri Thorsson spurði og byrjaði á að vitna í landslög:

„Ráðherra ákveður að fenginni tillögu sóttvarnalæknis hvort grípa skuli til opinberra sóttvarnaráðstafana“ o.s.frv.

„Það hefur ekki verið gert hér. Það hefur komið fram hjá sóttvarnalækni að ekki hafi verið haft samráð við hann og hann hefur látið á sér skilja að honum þyki þetta óráðlegt og ótímabært. Því spyr ég hæstvirtan ráðherra aftur hvort hann telji að hér hafi verið farið að lögum.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Einfaldara getur það ekki verið. Svarið ætti að vera já eða nei. Í þess í stað stökk Bjarni upp á nef sér og óð út í móa:

„En ég trúi ekki að háttvirtur þingmaður sé orðinn svo mikill formalisti að hann hafi ekki efnislega skoðun á þessu máli. Þetta mál hefur efnislega þýðingu, stórkostlega, fyrir okkur, ekki bara í efnahagslegu tilliti heldur líka varðandi frelsi okkar hér innan lands til að endurheimta fyrra líf. Hér er háttvirtur þingmaður að láta í það skína að það sé verið að taka mikla áhættu með því að treysta á bóluefnin, að við þurfum að gæta okkar á því að fara ekki fram úr okkur. Ef þessi málflutningur á að ráða för hlýtur hann eins að gilda gagnvart fólki hér innan lands eins og þeim sem koma bólusettir yfir landamærin. Það þýðir þá það, ef menn trúa þessu alla leið, að almenn bólusetning hér innan lands verði ekki lykillinn að því að endurheimta fyrra frelsi. Ég segi þetta vitandi allt um það að ný afbrigði veirunnar geta komið upp sem þarf að bregðast við. En að því gefnu að við séum ekki að glíma við eitthvað slíkt finnst mér þetta hafa verið mjög eðlileg ráðstöfun hjá ráðherranum.“

Bjarni fór eins fjarri svari við spurningunni eins og hugsast getur. Spurningunni er enn ósvarað. Voru lög brotin eða ekki?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: