Smekkleysu vikunnar á forstjóri Festis
„Smekkleysu vikunnar, herra forseti, á svo forstjóri fyrirtækis sem heitir Festi. Hann var eins og fleiri gripinn með lúkuna í sameiginlegum kökudunk landsmanna og skilaði fengnum. Og hvað sagði hann á eftir? Hann sagðist ekki vera það stoltur að hann ætlaði að keyra út í skurð. En þetta snýst ekki um stolt, herra stórforstjóri. Þetta snýst um virðingu, heiðarleika og hreinskilni og hún er ekki til þarna,“ sagði Þorsteinn Sæmundsson Miðflokki.
Þorsteinn talaði um vilja margra til að ná sér í peninga gegnum hlutabótaleiðina.
„Borið hefur á því að stöndug fyrirtæki hafi sótt sér peninga í hlutabætur en nokkur þeirra hafa þó séð að sér og skilað aftur til baka. Mig langar að minnast á nokkur fyrirtæki sem eiga það sameiginlegt að vera í almannaeigu, þ.e. eitt stöndugt og skuldlaust kaupfélag fyrir norðan sem skilaði sínum feng og tvö verslunarfyrirtæki í Reykjavík. Annað þeirra heitir Hagar og launakjör forstjóra þar eru með þeim hætti að það að rjúfa ráðningarsamband við tvo þeirra kostar jafn mikið og að ráða 20–30 hjúkrunarfræðinga til starfa í heilt ár. Fjórði stærsti hluthafi í því fyrirtæki er lífeyrissjóðurinn Birta. Það segir í eigendastefnu sjóðsins að það sé mat sjóðsins að gæta skuli hófs við ákvörðun starfskjara stjórnenda og m.a. sé horft til stærðar og umfangs rekstursins og þeirra starfskjara sem almennt bjóðast í því umhverfi sem fyrirtæki starfa í. Svo mörg voru þau orð og ég spyr, herra forseti: Hvar eru stjórnarmenn sem eru á vegum lífeyrissjóðanna í þessum fyrirtækjum? Hvar eru þau og hver er ábyrgð þessara stjórnarmanna? Vilja þau kannski koma fram og segja af hverju launakjör stjórnenda í þessu tiltekna fyrirtæki eru með þeim hætti, að það kosti árslaun 20–30 hjúkrunarfræðinga að rifta samningum við þá?“