Guðmundur Oddsson, fyrrum bæjarfulltrúi Alþýðuflokksins í Kópavogi, vekur athygli á sérstöku máli, í grein sem hann skrifaði og birt er í Mogga dagsins.
Svo merkilegt sem það nú er þá eru tveir virkir samgönguráðherrar starfandi. Núverandi og fyrrverandi. Gefum Guðmundi orðið:
„Jón Gunnarsson alþingismaður og fyrrverandi samgönguráðherra hefur farið um landið og boðað mönnum fagnaðarerindið. Boðskapur Jóns er mjög einfaldur; þ.e. að mjög auðvelt væri að stórbæta allt vegakerfi landsins á næstu árum með því að taka milljarða lán til tuttugu ára og greiða það niður með innheimtu veggjalda.“
Hvers á núverandi að gjalda
Það hlýtur að teljast sérstakt að einn ríkisstjórnarflokkur spili fyrrverandi samgönguráðherra gegn núverandi, og ekki síst þar sem yfirfrakkinn er settur á formann samstarfsflokks. Jón Gunnarsson hefur farið víða og boðað nýjar lausnir á afleiddu vegakerfi. Hann talar jafnvel þvert á stefnu Sigurðar Inga og getur ekki annað en gert honum gramt í geði.
Vill taka ný lán
Höldum nú áfram með grein Guðmundar, hann bendir á mótsagnir innan Sjálfstæðisflokksins:
„Fjármálaráðherra hefur sagt það vera mál númer eitt að greiða niður skuldir og hefur státað af því að árlega sé búið að greiða niður skuldir ríkissjóðs um tugi milljarða síðan hann varð fjármálaráðherra. Það eru því til nægir peningar til framkvæmda ef dregið er úr niðurgreiðslu skulda. Jón Gunnarsson vill ekki fara þá leið heldur vill hann taka ný lán og auka þannig skuldir ríkissjóðs á sama tíma og fjármálaráðherra keppist við að greiða niður skuldir. Hvers konar hagstjórn er þetta eiginlega? Getur verið að hin nýju framkvæmdalán sem Jón Gunnarsson boðar að taka auki ekki skuldir ríkissjóðs, heldur verði skrifuð á þá vegfarendur, sem um vegina keyra?“
Segir eitt, gerir annað
„Sjálfstæðisflokkurinn boðar það alltaf fyrir kosningar að hann vilji lækka skatta. Nú vill Jón Gunnarsson bæta við nýjum skatti því þeir fjármunir sem komi með honum verði notaðir til framkvæmda. Er það eitthvað nýtt að skattfé sé notað til framkvæmda? Þegar Jón var spurður hvar ætti að innheimta þennan nýja skatt var svarið einfalt: Um allt land.“
Peningarnir eru til
„Það er með ólíkindum að núverandi ríkisstjórn skuli láta alla innviði landsins grotna niður og líta á það sem forgangsatriði áað borga niður skuldir, sem nú eru komnar niður fyrir það sem þekkist í hinum Norðurlandaríkjunum. Þá vill fjrmálaráðherra stofna einhvern þjóðarsjóð, sem hægt væri að nota ef einhver áföll kæmu fyrir þjóðina. Er það ekki áfall að innviðir landsins séu í rúst? Peningarnir eru fyrir hendi, það vantar einungis viljann til að verja þeim á réttan hátt. Við þurfum ekki að taka ný lán til vegaframkvæmda.“