Þessi staða á fjölmiðlamarkaði getur ekki gengið til lengdar.
„Einkareknir fjölmiðlar keppa við ríkisfyrirtæki sem fær í forgjöf meiri tekjur en þessir einkamiðlar hafa í heildartekjur. Til viðbótar sækir þessi ríkismiðill svo inn á auglýsingamarkaðinn af vaxandi ákafa og óbilgirni og hagar sér á þeim viðkvæma markaði eins og fíll í postulínsbúð.“
Þetta stendur í leiðara Moggans í dag. Þar er fjallað um forskot Ríkisútvarpsins á aðra fjölmiðla landsins.
„Tekjur ríkisútvarpsins af sölu auglýsinga eru á bilinu 2-3 milljarðar króna á ári, sem bætast við fyrrgreinda milljarða sem berast stofnuninni úr vösum skattgreiðenda,“ segir þar.
Og áfram er haldið: „Þegar rætt er um stöðu einkarekinna fjölmiðla er þetta samhengið sem verður að hafa í huga. Hvað ætli þingmönnum þætti ef ríkið ræki umfangsmikla bókaútgáfu sem hefði í styrk frá ríkinu hærri fjárhæð en heildartekjur stærsta einkarekna keppinautarins? Hvernig ætli einkaaðilum gengi að takast á við slíka samkeppni.
Eða hvernig mundi þeim hugnast að ríkið ræki verslanakeðju sem hefði í forgjöf frá skattgreiðendum fleiri krónur en sem nemur veltu Haga. Ætli einhver teldi að slíkar „markaðs“aðstæður væru boðlegar?
Þessi staða á fjölmiðlamarkaði getur ekki gengið til lengdar og inngrip ríkisins á þessum markaði eru svo gríðarleg að smáskammtalækningar duga ekki til að tryggja eðlilega stöðu einkarekinna miðla og umhverfi þar sem heilbrigð fjölmiðlun fær þrifist á eðlilegum forsendum.“