Eins og við var að búast svarar Gunnar Smári grein Brynjars Níelssonar sem birt var á Viljanum í morgun:
„Hægri menn og aðrir borgaralega sinnaðir menn, sem ég tel vera meirihluti landsmanna, verða að láta meira í sér heyra. Ekki hræðast ofstækið og upphrópanir í öllum þessum vinstri miðlum sem reknir eru fyrir fé frá skattgreiðendum að mestu,“ skrifar Brynjar Níelsson, fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í Viljann, málgagn Björns Inga Hrafnssonar, sem Brynjar segir eina miðilinn þar sem svokallaðar borgaralegar raddir heyrast.
„Svo eru stjórnmálamenn svo óforskammaðir að dæla fé í framboð sem komu ekki manni á þing, mörg hundruð milljónum, sem notað er síðan til að reka fjölmiðil til að boða sömu hugmyndafræði og löndin byggja á sem enginn vill búa í og landsmenn flýja unnvörpum frá,“ skrifar Brynjar og á þá líklega við Sósíalistaflokkinn og Samstöðina.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, var næstum jafn upptekinn af styrknum sem Sósíalistaflokkurinn fær fyrir helgina í hlaðvarpsþætti Þjóðmála sem Gísli Freyr Valdórsson sér um. Bjarni var þó ekki ens ýkinn og Brynjar, sagði styrkinn á kjörtímabilinu ekki mörg hundruð milljónir heldur 120 m.kr. á kjörtímabili. Hið rétta er að styrkurinn á þessu ári er innan við 25 m.kr. sem á fjórum árum er innan við 100 m.kr.
Brynjar þolir illa að Sósíalistar eyði þessum styrk ekki í vitleysu heldur leggi helmings hans til Samstöðvarinnar, þar sem hann er um 30% af tekjum stöðvarinnar á móti áskriftum, framlögum og öðrum tekjum. Sá styrkur sem Sósíalistar fleyta til Samstöðvarinnar er rúmar 12 m.kr. á ári. Til samanburðar eru ríkisstyrkir til Moggans tæplega 67 m.kr. í ár og til Viðskiptablaðsins rúmar 25 m.kr., svo tveir fjölmiðlar frá ysta hægri séu nefndir.
En hvað er hæft í ummælum Brynjars og Bjarna um að styrkur til Sósíalistaflokksins sé óeðlilegur? Eru þeir að boða réttlæti eða enn meira óréttlæti?