- Advertisement -

SMÁ UM ÁRANGUR Í ÍSLANDS Í SAMANBURÐI VIÐ AÐRAR ÞJÓÐIR

Gunnar Smári Egilsson.

Árangur Íslands á HM er lakasti árangur þeirra Evrópuþjóða, sem aðeins hafa einu sinni komist á lokamót; eitt jafntefli og tvö töp. Bestur árangur þeirra Evrópuþjóða sem hafa farið einu sinni á HM var hjá Úkraínu 2006 en liðið vann þá Saudi Arabíu og Túnis í riðlakeppninni og varð í öðru sæti á eftir Spáni í H-riðli, sigraði svo Sviss í sögufrægri vítaspyrnukeppni í sextán liða úrslitum (Sviss skoraði ekki úr einni spyrnu) en tapaði svo fyrir Ítalíu í átta liða úrslitum. Ítalir urðu svo heimsmeistarar.

Wales komst líka í átta liða úrslitum í sinni einu keppni, 1958, fyrir Brasilíumönnum, sem urðu svo heimsmeistarar. Áður hafði Wales gert jafntefli við Ungverja, Mexíkó og Svía og unnið svo Ungverja í umspili fyrir átta liða úrslitin.

Slóvakar gerðu jafntefli við Nýsjálendinga í sínum fyrsta leik á HM í Brasilíu 2010, töpuðu svo fyrir Paraguay en sigruðu svo heimsmeistara Ítali í lokaleik riðilsins 3:2 og sendu þá heim. Slóvakar mættu svo Hollendingum í sextán liða úrslitum en töpuðu 1:2.

Bosnia Hersegóvína tók líka í fyrsta skipti þátt í Brasilíu 2010 og lenti í riðli með Argentínu og Nígeríu og tapaði báðum leikjunum en Bosníumenn unnu svo Íran í lokaleik riðilsins.

Eina aðildarþjóð Evrópska knattspyrnusambandsins fyrir utan Ísland, sem ekki hefur unnið leik á HM, er Ísrael, sem auðvitað er ekki Evrópuríki þótt það tilheyri UEFA. Ísrael tók þátt í Mexíkó 1970 tapaði fyrir Uruguay í riðlinum en náði jafntefli á móti Ítalíu og Svíþjóð.

Ísland er því sú af þeim Evrópuþjóðum, sem hafa komist einu sinni á HM, sem hefur uppskorið fæst stig á HM, eitt jafntefli.

Það er sami árangur og Kuwait náði á Spáni 1982 (jafntefli við Tékkóslóvakíu) og Trínidad og Tóbagó í Þýskalandi 2006 (jafntefli við Svía). Írak, Tógó, Kanada. Indónesía, Arabísku furstadæmin, Kína, Haiti, Kongó og El Salvador hafa öll tekið þátt einu sinni Á HM án þess að fá stig. Mögulega bætist Panama í þennan hóp í kvöld ef liðið nær ekki stigi af Túnis.

Ef við bætum í þessa upptalningu Evrópuþjóðum sem hafa komist oftar en einu sinni á lokamót HM þá var árangur Slóvena á sínu fyrsta móti lakari en Íslendinga, en þeir töpuðu öllum sínum leikjum í Kóreu/Japan 2002; fyrir Suður-Afríku, Spáni og Paraguay. Í næstu keppni Slóvena, í Suður-Afríku, töpuðu þeir fyrir Englendingum, gerðu jafntefli við Bandaríkin og unnu Alsír og sátu eftir í riðlinum.

Grikkir töpuðu öllum sínum leikjum á sínu fyrsta HM, í Bandaríkjunum 1994; töpuðu fyrir Argentínu, Búlgaríu og Nígeríu. Síðan þá hafa Grikkir farið tvívegis á lokamót HM og náð tveimur sigrum og tveimur jafnteflum, komust í 16. liða úrslit í Brasilíu 2014, en töpuðu í vítaspyrnukeppni fyrir Kosta Ríka.

Norðmenn voru með 1938 en þá var fyrirkomulagið annað, þeir spiluðu bara einn leik og töpuðu honum, töpuðu í framlengingu fyrir Ítölum sem urðu svo heimsmeistarar. En í fyrstu keppninni með núverandi fyrirkomulagi sem Norðmenn tóku þátt í, í Bandaríkjunum 1994, unnu þeir Mexíkóa, gerðu jafntefli við Íra en töpuðu fyrir Ítölum. Í næstu keppni komust Norðmenn í 16. liða úrslit eftir jafntefli við Marokkó og Skotland og frækinn sigur á Brasilíumönnum. Ítalir felldu Norðmenn úr keppni með 1:0 sigri í sextán liða úrslitum.

Norður-Írar stóðu sig vel í sinni fyrsti keppni í Svíþjóð 1958; unnu Tékkóslóvakíu í riðlinum, gerðu jafntefli við Vestur-Þýskaland en töpuðu fyrir Argentínu; komust upp en töpuðu svo illa fyrir Frökkum 0:4. Á Spáni 1982 unnu N-Írar riðilinn með því að gera jafntefli við Júgóslavíu og Hondúras og sigra gestgjafa Spánverja, en sátu eftir í milliriðlunum eftir jafntefli við Austurríkismenn og tap gegn Frökkum. Í Mexíkó 1986 náðu Norður-Írar jafntefli við Alsír en töpuðu fyrir Brasilíu og Spáni og sátu eftir í riðlinum með eitt stig.

Írar komust í fjórðungsúrslit í sinni fyrstu keppni, á Ítalíu 1990; reyndar án þess að vinna leik. Fyrst gerðu Írar jafntefli við öll liðin í sínum riðli; England, Holland og Egyptaland. Þá gerðu þeir jafntefli við Rúmeníu í 16. liða úrslitum og unnu í vítaspyrnukeppni en töpuðu svo 0:1 fyrir Ítölum í 8. liða úrslitum. Írar hafa síðan tekið þátt í tveimur lokamótum, í Bandaríkjunum 1994 og Japan/Kóreu 2002 og í bæði skiptin komist í 16. liða úrslit. 2002 fóru þeir taplausir upp úr riðli; unnu Saudi Arabíu en gerðu jafntefli við Kamerún og Þjóðverja og gerðu svo jafntefli við Spánverja í 16. liða úrslitunum en töpuðu í vítaspyrnukeppni. Saga Íra á HM er nokkuð glæst, af smáþjóð að vera.

Fyrsta keppni Tyrkja var 1958. Þá töpuðu þeir tvívegis fyrir Vestur-Þjóðverjum en unnu stórsigur á Suður-Kóreu. Næst þegar Tyrkir tóku þátt, í Japan/Kóreu 2002, náðu þeir í bronsverðlaun, sem er einn glæsilegasti árangur þeirra þjóða sem ekki geta talist meðal hinna bestu. Sú keppni byrjaði á tapi gegn Brasilíu, jafntefli við Kosta Ríka og sigri á Kína. Þetta dugði til að komast upp úr riðlinum. Eftir það unnu Tyrki Japani og Senegal en töpuðu fyrir Brasilíu í undanúrslitum og unnu svo Suður-Kóreu í leik um bronsið; ekki beint leið hárra þröskulda eða stórra sigra, en mikið afrek engu að síður.

Aðrar Evrópuþjóðir hafa komist á HM fimm sinnum eða oftar og því vont að bera árangur þeirra saman við Ísland. En eftirtaldar Evrópuþjóðir hafa aldrei náð inn á lokakeppni HM (innan sviga eru tilraunirnar, hversu mörgum forkeppnum þjóðirnar hafa tekið þátt í – Ísland komst inn í þrettándu tilraun): Lúxemborg (20), Finnland (19), Kýpur (15), Albanía (12), Malta (12), Eistland (9), Litháen (9), Lettland (8), Færeyjar (7), San Marino (7), Armenía (6), Azerbaijan (6), Hvíta Rússland (6), Georgía (6), Kasakstan (6), Liechtenstein (6), Makedónía (6), Moldóva (6), Andorra (5), Svartfjallaland (3), Gíbraltar (1) og Kósóvó (1).

Samanlagt er Ísland því í 34. sæti þeirra Evrópuþjóða sem reynt hafa fyrir sér á lokamóti HM en undir okkur eru svo 22 þjóðir sem aldrei hafa komist á HM. Ísland er því 34. sæti af 56.

-gse


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: