- Advertisement -

Slík vinnubrögð hæfa aðeins einræðisflokkum

Ragnar Sverrisson, kaupmaður á Akureyri og félagi í Samfylkingunni skrifaði:

Fyrir þremur dögum kvartaði undirritaður undan orðum nýkjörins formanns Samfylkingarinnar þegar hún tilkynnti fyrir formannskjörið að hún myndi beita sér fyrir því að aðild Íslands að ESB yrði ekki forgangsverkefni flokksins enda þótt slík aðild væri í samþykktum hans og stefnu. Það sem fór fyrir brjóstið á mér var sú staðreynd að ekkert hefur verið fjallað um þessa stefnubreytingu innan flokksins enda þótt einlægt sé verið að tala um að allt slíkt komi í framhaldi af samræðum en ekki einhliða ákvörðun einstaklinga innan hans. Slík vinnubrögð hæfa aðeins einræðisflokkum og ekki til eftirbreytni. Þetta útspil nýja formannsins samræmist líka alls ekki fyrirliggjandi þingsályktunartillögu, sem fyrrum formaður Samfylkingarinnar er fyrsti flutningsmaður að ásamt Viðreisn og Pírötum. Þar er lagt til að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um aðildarviðræður svo fljótt sem verða má.

Öllum má vera ljóst að til þess að ná fram ofangreindri stefnu Samfylkingarinnar verður það ekki gert í gegnum Sjálfstæðisflokkinn – mestu sérhagsmunasamtök Íslandssögunnar – heldur með því að beina orðum að almennum kjósendum sem munu alltaf hafa síðasta orðið í þessu máli. Allt tal um að friðmælast við íhaldið til að koma þessu stefnumáli að er ekki nein töfralausn svo notuð séu orð okkar nýja formanns. Vonandi eru þetta bara byrjendamistök og hún átti sig á því að í þessu efni þarf að berjast fyrir málstaðnum og auka honum fylgis meðal almennings. Þá vinnast sigrar.

Fyrirsögnin er Miðjunnar og er sótt í grein Ragnars.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: