Slæm útreið Metro í svartri skýrslu – MYNDIR – Ólafur eigandi: „Þetta er alltaf lagað, annars væri löngu búið að loka“
„Taka þarf til og þrífa allt húsnæðið,“ er niðurstaða Heilbrigðiseftirlitsins eftir heimsókn á skyndibitastaðinn Metro í Skeifunni. Eftirlitið gaf út svarta skýrslu þar sem alvarlegar athugasemdir eru gerðar verðandi hreinlæti húsnæðisins og aðbúnar á staðnum. Í skýrslunni fær staðurinn 1 í einkunn, af 5 mögulegum.
Ólafur Sigmarsson, framkvæmdastjóri Metro, ræddi hina slæmu útkomu við DV. „Þú ert alltaf að laga þetta, gera þetta og hitt betur. Það er eitthvað í þetta skiptið og annað í það næsta, það getur verið að þú hafir bara ekki þrifið nógu vel eða ekki skipt um þennan hlut eða hinn, þetta er alltaf í gangi hjá öllum þessum veitingageira,“ segir Ólafur og heldur áfram:
„Aðal málið er að heilbrigðiseftirlitið kemur og gerir úttektir, gerir athugasemdir, bendir á hvernig þú lagar þetta og hitt, og svo er það bara alltaf lagað. Þannig bara virkar þessi bransi. Og það hefur alltaf staðist. Annars væri löngu búið að loka.“