Sóley Tómasdóttir, fyrrverandi forseti borgarstjórnar, hefur tekið þátt í umræðunni um ákvörðun Sönnu Magdalenu Mörtudóttur og Sósíalistaflokks Íslands.
„Nú keppist fólk við að dæma Sósíalistaflokkinn fyrir að hafna áhrifum. Það hafa þau alls ekki gert. Að vera í minnihluta í borgarstjórn er ekki það sama og að vera í stjórnarandstöðu á þingi. Allir borgarfulltrúar hafa sama rétt til að leggja fram tillögur, þau hafa öll sama aðgang að embættismönnum og þau geta öll haft áhrif,“ skrifar Sóley.
„Það eina sem Sósíalistaflokkurinn hefur ákveðið er að gera ekki samning um samstarf við aðra flokka að svo komnu máli. Mér finnst það mjög skynsamlegt af þeim, enda væri undarlegt ef nýr og róttækur flokkur byrjaði á að gera málamiðlanir um störfin út kjörtímabilið. Ég hef fulla trú á því að Sanna eigi eftir að leggja margt gott til, jafnt í fagráðum sem og borgarstjórn og ég vona að meirihlutinn muni taka tillögum hennar á málefnalegan hátt.
Sjálf var ég í minnihluta 2010-2014 en hafði umtalsverð áhrif samt sem áður. Fjölmargar tillögur voru samþykktar frá mér, s.s. stefnumótun um Kaupmanninn á horninu sem síðar varð hluti af aðalskipulagi, tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar sem hefur sannarlega undið upp á sig og árleg minningarstund við leiði Bríetar sem er orðin að fallegri hefð,“ skrifar Sóley Tómasdóttir.