„Tekjur Reykjavíkurborgar hafa aldrei verið meiri, enda skattar í hámarki og gjöld í hæstu hæðum. Afkoma borgarinnar er þó lakari en árið 2017 enda vaxa gjöldin hratt. Launakostnaður vex um 10% milli ára af reglulegum rekstri. „Annar rekstrarkostnaður“ vex um 8%. Þá vekur sérstaka athygli að skuldir borgarinnar halda áfram að vaxa í góðæri,“ segir í bókun borgarstjórnarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
„Skuldir borgarsjóðs hækka um átta milljarða og eru 108 milljarðar um áramót. Heildarskuldir borgarinnar hækka enn meira eða um 25 milljarða og eru 324 milljarðar í lok síðasta árs. Það er hækkun um rúma 2 milljarða á mánuði árið 2018. Þetta gerist á sama tíma og ríkissjóður lækkar skuldir sínar. Afgangur af rekstri dugar ekki fyrir fjárfestingum og fjármagnskostnaður borgarinnar snarhækkar á milli ára,“ segir þar einnig.