„Evrulánin eru sannarlega hagstæð. En þeim fylgir mikil gengisáhætta. Bara á síðasta ári hækkuðu erlendar skuldir ríkissjóðs um 45 milljarða króna vegna falls krónunnar. Salan á Íslandsbankabréfunum rétt dugar til að mæta þessu tapi,“ segir meðal annars í Moggagrein Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttir, formanns Viðreisnar.
„Stefnan í peningamálum heyrir undir forsætisráðherra. Grundvallarbreyting af þessu tagi er ákveðin án skýringa og án umræðu á Alþingi. Það er til marks um umræðuflótta. Hann staðfestir aftur að stefnubreytingin er gerð í veikleika; fæturnir eru valtir,“ skrifar hún.
„Í þeim tilgangi að knýja fram pólitíska umræðu um þessi efni hyggst Viðreisn óska eftir skýrslu forsætisráðherra þar sem gerð yrði grein fyrir líklegri þróun vaxta og gengisáhættu í ljósi þeirra gífurlegu lána, sem ríkissjóður þarf að taka. Jafnframt er nauðsynlegt að bera niðurstöðuna saman við þá möguleika sem evran myndi skapa.
Verðbólgan og kúvending ríkisstjórnarinnar eru viðvörun og hættumerki. Eins og í umferðinni verðum við að líta til beggja átta og meta aðstæður. Hitt er síðan óábyrgt að loka augunum þegar hættumerkin birtast.“