Skuldir heimilanna hækkuðu um 25 milljarða króna á einni nóttu
„Þannig vill til að 20. apríl reiknaði Hagstofan út vísitölu neysluverðs fyrir síðasta mánuð og sú vísitala hækkaði með þeim afleiðingum að verðtryggð lán heimila hafa líklega hækkað um 25 milljarða núna um mánaðamótin vegna þess að ársverðbólgan mælist líklega nálægt sex prósentum, samkvæmt því sem kom fram í hækkun milli mánaða hjá Hagstofunni,“ sagði Þorsteinn Sæmundsson Miðflokki í þingræðu fyrr í dag.
„Inni í þessum vísitöluútreikningi Hagstofunnar núna er reiknað með gæðum og þjónustu sem er ekki til, sem er ekki á markaði, flugfargjöld, pakkaferðir, á þeim tíma hárgreiðsla eins og augsýnilegt er sums staðar. Í staðinn fyrir að sleppa þessum óaðgengilegu vörum og þjónustu er miðað við næsta mánuð á undan. Ég spyr hvort þetta verði raunin fram eftir árinu, að reiknað verði með verði flugfargjalda eins og það var í marslok eða eitthvað slíkt til að halda áfram að pumpa upp vísitöluna,“ sagði Þorsteinn.
„Hækkunin núna sýnir okkur enn nauðsyn þess að ríkisstjórnin taki nú þegar til við það að frysta þessa sömu vísitölu. Það var ekki gert fyrir tíu árum, líklega stærstu mistök sem voru gerð þá, sem varð til þess að rúmur tugur þúsunda landsmanna lenti á götunni. Við höfum ekki efni á því að endurtaka slíkt, herra forseti, og ég skora á Hagstofuna að draga til baka þessa útreikninga og þá ákvörðun sem var tekin í síðasta mánuði og reikna þetta upp aftur nú þegar,“ sagði þingmaðurinn.
-sme