- Advertisement -

Skuldir Félagsbústaða verða 45 milljarðar

…fjöldi íbúða fara úr rúmlega 2.600 íbúðareiningum í lok árs 2019 í ríflega 3.100 íbúðareiningar í lok árs 2023.

Nýjar fréttir daglega – Miðjan.is.

Borgarsjóður er að taka ábyrgð á láni Félagsbústaða að fjárhæð fjórir og hálfur milljarður. Félagsbústaðir munu þá skuld 44,5 milljarða króna.

„Fram undan er veruleg stækkun á íbúðasafni Félagsbústaða. Ef áætlunin gengur eftir mun fjöldi íbúða fara úr rúmlega 2.600 íbúðareiningum í lok árs 2019 í ríflega 3.100 íbúðareiningar í lok árs 2023. Þetta kallar á fjárfestingar sem fyrst og fremst eru fjármagnaðar með lántöku en einnig stofnframlögum frá bæði ríki og úr borgarsjóði,“ segir í bókun meirihlutans. Þau fagna að auki góðum lánskjörum Félagsbústaða.

Eyþór, Vigdís og Kolbrún.

Málið er alls ekki einfalt. Borgarráðs fulltrúar Sjálfstæðisflokki benda á: „Enn og aftur er verið að fara fram á að Reykjavíkurborg gangist í ábyrgð fyrir milljarða skuldir dótturfyrirtækis sem er greinilega ekki með sjálfbæran rekstur. Hér er verið að leggja til viðbótarábyrgð Reykjavíkurborgar fyrir 3.500 milljónir króna skuldum Félagsbústaða hf.“

Vigdís Hauksdóttir er herskárri:  „Á meðan þessi meirihluti situr við stjórn í Reykjavík verður lítilla tíðinda að vænta að fara í þetta mat, því uppgjörsreglur Félagsbústaða fegra bókhald Reykjavíkurborgar. Það er löngu tímabært að skoða fyrir alvöru hvort ekki komi betur út fjárhagslega fyrir Reykjavík að selja drjúgan hluta af þessu eignasafni og losna við í leiðinni óbærilegan fjármagnskostnað, ábyrgðir og viðhaldskostnað og niðurgreiða í staðinn enn frekar leigu skjólstæðinga Félagsbústaða sem nemur fjármagnskostnaði lánanna sem á Félagsbústöðum hvíla. Eftir lántökuna eru skuldir Félagsbústaða 45 milljarðar.“

Kolbrún Baldursdóttir, Flokki fólksins, hefur oft áður talað um Félagsbústaði. Og hún er ekki hætt: „Þótt eitt og annað hafi batnað hjá fyrirtækinu eftir að farið var að veita meira aðhald m.a. af hálfu Flokks fólksins þá er ímyndarvandi enn mikill og varla líður sá dagur að ekki berast kvartanir frá leigjendum. Sami vandi er með ástand eigna. Leigjendur segja að seint og um síðir koma viðgerðarmenn og oft aðeins plástra þann vanda sem kvartað er yfir. Fólk er enn að láta vita af veikindum vegna myglu. Félagsbústaðir kaupa eignir eins og enginn sé morgundagurinn en geta að sama skapi ekki sinnt viðhaldi né halda þau nægjanlega vel utan um leigjendurna sem er afar viðkvæmur hópur. Meirihlutinn í borginni þarf að taka á málum Félagsbústaða í heild sinni. Leigan hækkar einnig reglulega.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: