- Advertisement -

Skuldarar drífi sig í gjaldþrot

Neytendur „Að stíga skrefið og ákveða að verða gjaldþrota er úrræði sem mörgum finnst erfitt að taka. Hins vegar er ljóst að það úrræði að lýsa sig gjaldþrota þarf ekki að vera neikvætt og er oft á tíðum það skuldaúrræði sem hentað getur einstaklingum og fyrirtækjum best þegar skuldastaðan er orðin þannig að skuldarar sjá ekki með neinu móti fram á að geta greitt af skuldbindingum sínum til kröfuhafa. Innleiðing tveggja ára fyrningarreglu gjaldþrotalaga hefur skipt sköpum í þessum efnum fyrir skuldara við mat á því hvort rétt sé að fara í gjaldþrot eða ekki,“ segir Hlynir Ingason héraðsdómslögmaður og einn af eigendum lögmannsstofunnar Lögmenn Sundagörðum, í grein á Pressunni.

Hlynur rifjar upp grein sem hann skrifaði  í október á síðasta ári vegna svokallaðrar tveggja ára fyrningarreglu gjaldþrotalaga. Í stuttu máli felst þessi breyting á gjaldþrotalögunum  í því að tveggja ára fyrningarfrestur krafna byrjar að líða við skiptalok og gildir jafnt um þær kröfur sem lýst hefur verið við skiptin sjálf og þær kröfur sem ekki hefur verið lýst við skiptin. Fyrningunni sem slíkri verður aðeins slitið með dómi.

Í pistlinum var skorað á löggjafann að bregðast við og framlengja umræddan tveggja ára fyrningarfrest. Ekkert hefur enn miðað hjá löggjafanum í framlengingu á umræddu ákvæði gjaldþrotalaga en samkvæmt lögunum ber að endurskoða ákvæðið í desember á þessu ári. Hvað við kemur endurskoðun ákvæðisins hefur sá sem þetta ritar jafnframt fengið veður af því að fjármálastofnanir hafi þrýst á stjórnvöld um að fella brott úr gjaldþrotalögum þetta mikilvæga úrræði fyrir skuldara.

Nauðsynlegt er að sú breyting sem gerð var á gjaldþrotalögunum í desember 2010 með innleiðingu tveggja ára fyrningareglu gjaldþrotalaga verði framlengd eða eftir atvikum gerð varanleg í gjaldþrotalögum þegar endurskoðun ákvæðisins fer fram.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ef fyrir liggur hjá skuldurum að fara í gjaldþrot er þó rétt að skuldarar hafi hraðar hendur þar sem ákvæði tveggja ára fyrningarreglu gjaldþrotalaga hefur enn ekki verið framlengt eða gert varanlegt í gjaldþrotalögum og því enn óvíst hvort að ákveðið verði af hálfu löggjafans að framlengja ákvæðið um tveggja ára fyrningarreglu gjaldþrotalaga.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: