- Advertisement -

Skuldaleiðréttingarnar muni njóta forgangs hjá ríkissjóði

„Mig langar að ræða ríkisfjármál og í raun forgangsröðun í úgjöldum í ríkisfjármálum,“ sagði Guðmundur Steingrímsson á Alþingi í gær. Hann sagði umræðuna um veiðileyfagjöld sýna að margir óvissuþættir séu í rekstri ríkissjóðs. „Einn þeirra er afkoma í sjávarútvegi.“ Og hann bætti við: „. Ríkissjóður er ofurskuldsettur, hann er einn af skuldsettustu ríkissjóðum Evrópu. Vextir af lánum eru breyta sem getur haft gríðarlega mikla þýðingu fyrir útgjöld úr ríkissjóði.“

Guðmundur beindi orðum sínum til Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og spurði: „…hvort það sé réttur skilningur hjá mér að í þessum óvissu- og ólgusjó, þar sem stórir tekjuliðir geta horfið og þar sem útgjöld ríkisins geta aukist, muni þessi útgjaldaliður, 20 milljarðar á ári næstu fjögur ár hið minnsta, alltaf njóta forgangs.“

Bjarni tók af allan vafa: „Já, það er mikilvægt að tekinn sé af allur vafi um það, ef menn telja hann vera til staðar, að ríkisstjórnin hyggst verja 20 milljörðum á ári í lækkun á höfuðstól verðtryggðra lána. Það er stefnumörkun sem nær út kjörtímabilið og var fyrsta framlagið sett inn fyrir árið 2014.“

„Það er mjög mikilvægt að fá þessa forgangsröðun alveg skýra og ég vil leyfa mér að lýsa því yfir að ég er algerlega ósammála henni.,“ sagði Guðmundur Steingrímsson.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Risastórar tölur

Bjarni hélt áfram og sagði rétt hjá Guðmundi „…að við erum mjög skuldsett. En hvað er á bak við þær skuldir? Við erum með gríðarlega miklar eignir eins og til dæmis í fjármálafyrirtækjunum og við eigum að horfa til þess að létta þeim af okkur og greiða þannig niður viðkomandi skuldir. Ef okkur tekst vel til með afnám hafta þá munu vonandi líka opnast möguleikar til að greiða niður þau miklu lán sem hafa verið tekin og valda miklum vaxtakostnaði vegna gjaldeyrisvaraforðans. Þetta eru risastórar tölur í öllu samhengi hlutanna hér almennt í þinginu og það er tiltekt í efnahagsreikningnum, sala ríkiseigna og uppgreiðsla skulda sem við eigum að vera að horfa á þegar við erum að ræða um ríkisfjármál í þessu stóra samhengi.“

Guðmundur koma víða við og sagði meðal annars: „Ég held að eftir langvarandi niðurskurðartíma sé miklu mikilvægara að fara að setja fé í uppbyggingu í menntakerfinu, í uppbyggingu á rannsóknum og þróun, í uppbyggingu á fjölbreyttu atvinnulífi svo að dæmi séu tekin. Ég held að heilbrigðiskerfið sé komið á ystu nöf, og var það þegar við afgreiðslu fjárlaga síðast. Það verður gríðarleg fjárþörf þar þegar við förum að afgreiða fjárlög hér næst. Við verðum komin á þann stað að við jafnvel gleymum bara svona risastórum viðhaldsfrekum tekjuliðum eins og vegakerfinu. Það að ráðast ekki í viðhald þar er einfaldlega lántaka frá komandi kynslóðum. Það að greiða niður skuldir ríkissjóðs, þó að ríkissjóður eigi einhverjar eignir á móti, væri mjög viturleg fjárfesting. Það er sem sagt alveg skýrt að þegar upp mun koma krafa um fjárútlát í alls konar mikilvæg verkefni í þágu betra mannlífs og betri innviða þá nýtur skuldaleiðréttingin upp á 20 milljarða forgangs. Hún verður þá fjármögnuð með niðurskurði annars staðar.“

 Miklar eignir

„Ég trúi ekki öðru en það sé smám saman að komast til skila að þessi ríkisstjórn hefur sett aðgerðir fyrir skuldsett heimili í forgang. Ég vona að það sé smám saman að skýrast fyrir þingheimi að við höfum sett það mál á oddinn í stjórnarsamstarfinu og hyggjumst fylgja því eftir allt kjörtímabilið,“ sagðui Bjarni Benediktsson.

Hann sagðist einnig vera að vekja athygli á að ríkið á mjög stórar eignir sem það tók lán til að eignast á sínum tíma, eða til að endurreisa íslenska bankakerfið til dæmis. Ef við horfum, svo að dæmi sé tekið, til Landsbankans þá erum við þar með eign sem gæti legið öðru hvoru megin við 150 milljarða að lágmarki í virði; kannski 200 milljarða ef þannig stendur á hjá fjárfestum að eignir af þessu tagi séu hátt metnar. Við getum notað alla þá fjárhæð ef sá hlutur er seldur hundrað prósent. Nú er ég ekki að leggja það sérstaklega til. Ég sé fyrir mér að ríkið mundi í fyrsta kastinu halda eftir verulega stórum eignarhlut, kannski helmingi eða svo. En þá erum við að tala um verulega stórar fjárhæðir sem fara beint í uppgreiðslu skulda og slá þannig stórkostlega niður vaxtakostnaði ríkisins til að geta sett fjármagn í innviði.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: