Skuggi Sjálfstæðisflokksins
Leiðari Allt annað, meira að segja fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, kólnar í skugga Sjálfstæðisflokksins. Ósmekkleg framganga forystu flokksins, og fótgönguliða hennar, yfirskyggir allt annað. Þögnin hefur verið rofin.
Vitað er að forsætisráðherrann situr yfir Facebook og skráir hverjum líkar hvað og hverjum ekki. Hann er væntanlega mjög upptekinn núna.
Auðvitað getur Bjarni Benediktsson ekki tekið ábyrgð á gerðum föður síns. Hann getur hins vegar, og hann verður, að taka ábyrgð á hvernig hann brást við fréttum af afar ósmekklegri breytni föður síns. Við blasir að Bjarni, Sigríður Á. Andersen, Byrnjar Níelsson og fótgönguliðarnir hafa leikið afskaplega illa af sér í þeirri þröngu stöðu sinni.
Það er afar merkilegt hversu margir innmúraðir og innvígðir koma við sögu þegar hýðið er tekið af málum tveggja hrottalegra afbrotamanna.
Framundan eru kosningar, þingið er nýtekið til starfa að nýju. Þetta og allt annað kemst ekki að. Enn vantar svör. Þjóðin þarf að fá að vita, með óyggjandi hætti, hvort reynt var að nota ríkisvaldið til að fela sannleikann.
Nú bendir flest til misnotkunar valds. Málið er rétt að hefjast. Þing og ríkisstjórn eru í gíslingu hins ískalda skugga Sjálfstæðisflokksins.
Staða Bjarna, staða Sjálfstæðisflokksins og staða ríkisstjórnarinnar er slæm. Breytingar eru framundan.
Sigurjón M. Egilsson.