Greinar

Skrópið á skrautsýningu Vg

By Miðjan

November 14, 2018

Katrín Baldursdóttir skrifar: „Mér finnst að hin nýja verkalýðsforysta eigi að sniðganga þennan fund. Ekki taka þátt í að skreyta Vg fjöðrum sem engin innistæða er fyrir. Nýjasta útspilið er að kasta öryrkjum á eldinn vegna þess að hagkerfinu er farið að kólna. Það á að taka rúman milljarð af fyrirhuguðum framlögum til öryrkja en risastór hluti öryrkja eru útslitnir einmitt vegna álags á vinnumarkaði og arðráns. Þá hefur Vg ekki komið með neitt raunhæft útspil til handa láglaunafólki vegna komandi kjarasamninga, heldur þvert á móti.  Vg tekur þátt í að syngja með kór atvinnurekenda og auðmanna um að nú sé ekki hægt að hækka laun nema mjög lítið annars sé stöðugleikanum stefnt í hættu. Á sama tíma er hægt að lækka veiðigjöldin og ekki má hrófla við sköttum auðmanna.

Forystumenn Vg vita nákvæmlega hverjar eru kröfur hinnar nýju verkalýðshreyfingar og þurfa ekki að skreyta sig með svona fundi til að komast að því. Nýja forysta verkalýðshreyfingarinnar á ekki að láta plata sig upp á svið í þessu innihaldslausa leikriti. Ef Vg hefði eitthvað ásættanlegt fram að færa og leikritið snerist um eitthvað sem skipti máli fyrir launafólk þá væri annað uppi á teningnum. En meðan svo er ekki þá er þessi fundur bara skrautsýning fyrir Vg.“

Birtist á Facebooksíðu Katrínar.