„Allar góðu hugmyndirnar fara bara ofan í skúffu meirihlutans.“
Björn Leví Gunnarsson skrifar grein í Mogga dagsins. Þar greinir hann hluta af störfum Alþingis. Niðurstaða þingmannsins er meðal annars þessi:
„Í dag komst ég að því, til dæmis, að stór hluti vinnunnar minnar snýst um að gera ekki neitt. Ekki þeirrar vinnu sem ég geri, heldur þess hvernig vinnustaðurinn minn virðist skipulagður. Á Alþingi leggjum við fram alls konar mál. Ræðum allt á milli himins og jarðar. Við viljum gera allt betur og gera allt betra. Svo deyr það í nefnd.“
En hvers vegna?
„Það er nefnilega skrítið markmið að örlög langflestra allra hinna merkilegu, og ómerkilegu, mála sem lögð eru fram á löggjafarþinginu okkar eru að enda ævi sína í nefnd. Nefndarvinnan, þar sem allt góða starfið á að fara fram ólíkt því sem alþjóð sér í ræðustól Alþingis, er hulin ákveðnum leyndarhjúp. Þar gerist alvöru pólitíkin. Ekki uppbyggilega pólitíkin eða rökræður um kosti og galla. Þar eru ekki heimspekilegar umræður um grundvallarlögmál velferðarsamfélagsins. Inn í nefndirnar koma mál, fá umsagnir, kannski koma meira að segja gestir og kynna umsögn sína og svara spurningum nefndarmanna. Svo, í langflestum tilfellum, gerist ekkert meira. Allar góðu hugmyndirnar fara bara ofan í skúffu meirihlutans þangað til næsta þing byrjar og nákvæmlega sami skrípaleikur endurtekur sig.“