- Advertisement -

Skrautlegar sögur um íslenska búðarþjófa

Fortíðin „Við höfðum veitt þessari konu athygli vegna þess að hún kom alltaf með barnið sitt með sér og hafði það í kerru sem hún ók um í versluninni. Sjálf hélt konan á innkaupakörfu. Á milli þess sem hún lét vörur í körfuna raðaði hún vörum í barnakerruna og faldi þannig stolnu vörurnar á bak við barnið.“

Það er kunnur kaupmaður hér í borg sem svona mælir. Þessi saga hans er aðeins ein af mörgum sögum íslenskra kaupmanna um búðarhnupl. Og þær eru vægast sagt æði skrautlegar sögurnar um íslenska búðarþjófa.

Annar kaupmaður:

„Ég var að raða vörum í búðarhillu þegar ég sá af tilviljun hvar karlmaður á miðjum aldri stakk smjörstykki í rassvasann. Ég kallaði á hann og bað hann um að koma með mér inn á skrifstofu mína. Ég var með stól upp við heitan ofn og þar bað ég manninn að setjast. Það gerði hann. Ég ræddi dágóða stund við hann um þjófnaði í verslunum án þess þó að minnast á smjörstykkið. En hitinn sagði til sín og maðurinn játaði á sig verknaðinn skömmustulegur.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Og önnur saga:

„Það var frú, sem var greinilega í ágætum efnum, að kaupa hjá mér. Hún var búin að fylla búðarkerruna. Allt í einu þurfti hún að bregða sér í annan hluta verslunarinnar og skyldi kerruna eftir. Afgreiðslustúlka sem var að raða í hillu rétt við kerruna sá að annar leðurhanski konunnar sem lá ofan á vörunum í kerrunni var hálfbólginn. Stúlkan laumaðist til að kíkja inn í hanskann og fann þar lítið asetonglas sem kostaði aðeins 30 krónur. Þessi kona var með vörur fyrir þúsundir króna í körfunni en niðurlægði sig svo fyrir aðeins 30 krónur.“

Loks sagði kaupmaður frá því að hann hefði gripið nokkra stálpaða stráka við búðarhnupl í verslun sinni og náð í lögregluna strax.

„Um kvöldið hringdi svo faðir eins stráksins og húðskammaði mig fyrir að ná í lögregluna. Stákurinn hafði ekki verið neitt nema kjafturinn í versluninni en faðirinn var helmingi verri.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: