- Advertisement -

Skrælt utan af hræsni Katrínar

Gunnar Smári: „Hér er skrælt utan af hræsni Katrínar Jakobsdóttur.“

Jóhann Páll Jóhannsson skrifaði:

Katrín Jakobsdóttir skrifaði nýlega fína grein, sem birtist í bókinni A Vision for Europe, um framtíð prógressífra stjórnmála í Evrópu, lýðræðishalla og ónýta efnahagsstefnu Evrópusambandsins og nauðsyn þess að vinstrimenn allra landa sameinist gegn öfgahægriöflum, kvenhatri og útlendingaandúð (https://stundin.is/…/katrin-evropskir-vinstriflokkar-verda…/).

Hún gagnrýnir réttilega að meginstraumsflokkar freistist gjarnan til reiða sig á stuðning frá öfgaöflum við landstjórnina og veiti þannig sjónarmiðum þeirra lögmæti. Í þessu samhengi hlýtur maður að velta fyrir sér stöðu Katrínar sjálfrar og Vinstri grænna sem eiga í stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og eftirlétu honum stjórn útlendinga- og mannréttindamála þrátt fyrir að flokkurinn reki harða útlendingastefnu, hafi hert hana verulega á undanförnum árum með frumvörpum og reglugerðum sem skerða réttaröryggi, lífskjör og mannréttindi hælisleitenda og hafi hamast gegn réttarbótum fyrir erlendar barnafjölskyldur í aðdraganda síðustu þingkosninga. Sú stefna var svo rekin áfram af fullum þunga eftir að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var mynduð og umboð Sigríðar Andersen í dómsmálaráðuneytinu endurnýjað (sama dag og níu af ellefu þingmönnum VG vörðu Sigríði Andersen vantrausti, 6. mars 2018, setti Sigríður enn eina reglugerðina gegn hælisleitendum, https://stundin.is/…/sigridur-threngdi-ad-rettindum-haelis…/, en ráðherrann var ekki látin taka pokann sinn fyrr en ári síðar, þegar það var ekki lengur hægt að neita því að hún hefði klessukeyrt heilt dómstig).

Þú gætir haft áhuga á þessum

Katrín Jakobsdóttir hélt erindi á afmælishátíð Sjálfstæðisflokksins í dag og mærði Bjarna Benediktsson sem einn sinn besta samstarfsmann – stjórnmálaforingja sem beitir þjóðernispopúlískri orðræðu með ógeðfelldari hætti en flestir aðrir íslenskir stjórnmálamenn, hefur t.d. talað um Víðines sem eins konar no go-zone og harmað opinberlega að tiltekin fjölskylda af albönskum uppruna skyldi fá ríkisborgararétt (https://stundin.is/…/forsaetisradherra-slaem-radstofun-ad-…/, hvernig ætli það sé að sitja undir því að forsætisráðherra landsins þíns, þar sem þú býrð og ert með ríkisborgararétt, harmi að þú hafir fengið að tilheyra samfélaginu, hvernig ætli manni líði við að heyra svoleiðis um sig og börnin sín?).

Sami samstarfsmaður Katrínar er nýbúinn að greiða atkvæði gegn stjórnarfrumvarpi ríkisstjórnar hennar um þungunarrof – og ekki bara það heldur beitti hann sér fyrir því að réttur kvenna til fóstureyðingar yrði beinlínis þrengdur frá því sem nú er (https://stundin.is/…/sjo-thingmenn-sjalfstaedisflokksins-v…/). Þannig reyndi hann sitt besta til að „grafa undan fyrri sigrum í baráttu kvenna fyrir yfirráðum yfir sínum eigin líkama“ svo notað sé orðalag úr nýlegu, mjög fínu, erindi Katrínar Jakobsdóttur þar sem hún fjallar um baráttu öfgahægriflokka gegn innflytjendum, minnihlutahópum og kvenfrelsi (https://stundin.is/…/forsaetisradherra-segir-ofgahaegrid-g…/).

Það er ánægjulegt að eiga forsætisráðherra sem talar og skrifar sem raunsær vinstrileiðtogi, gagnrýnir öfgahægrið á skynsamlegum forsendum, áttar sig á hönnunargöllum Evrópusambandsins og kallar eftir samstöðu vinstrimanna á alþjóðavettvangi. En það er dálítið holur hljómur í gagnrýni Katrínar á meginstraumsflokka sem lúffa fyrir hægriöfgum ef hún og flokkur hennar taka ekki harðar á slíkum öfgum heima fyrir en raun ber vitni.

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp frá dómsmálaráðherra sem snýst um að herða enn frekar útlendingalöggjöfina á Íslandi, t.d. takmarka andmælarétt hælisleitenda og sporna gegn því að að­stand­endur kvóta­flótta­fólks geti fengið dvalar­leyfi á grund­velli fjöl­skyldu­sam­einingar. Háværustu stuðningsmenn þessa stjórnarfrumvarps eru hægripopúlistarnir í Miðflokknum (https://stundin.is/…/midflokksmenn-stydja-aform-rikisstjor…/). Það verður fróðlegt að sjá hvernig atkvæði vinstri grænna þingmanna falla við afgreiðslu málsins. Grein Katrínar, ákall hennar til vinstrimanna í Evrópu, er ekki bara góð út af fyrir sig, heldur getur hún orðið gagnleg mælistika á verk Vinstri grænna, ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og dýnamíkina gagnvart hægriöfgum á Íslandi næstu misserin.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: