„Auðvitað fordæmir allt fólk skotárásir á hús og bíla. Og ég auðvitað líka. Skotvopn eru ekki tjáningartæki heldur ofbeldistól, byssukúla er ekki innlegg í umræðu heldur hótun, ógn og ofbeldi. Það er auðvirðilegt að skjóta á hús eða bíla í skjóli nætur, skammarlegt,“ skrifar Gunnar Smári Egilsson.
„Ég finn til með Degi B. Eggertssyni og hans fallegu fjölskyldu. Húsbrot og innrás á þau svæði sem við töldum að væri helg hefur meiri áhrif á okkur en við getum séð fyrir. Þetta eru árásir á friðhelgi okkar. Og þess vegna eru þær alvarlegar, svívirðilegt ofbeldi.
Ég hvet fólk hins vegar að fara varlega í að eigna öðru fólki að hafa ýtt undir þá ákvörðun óþekkts manns að fremja þessi ódæði. Það eru engin tengsl á milli búsáhaldabyltingarinnar og þessara skotárása, engin tengsl á milli þeirra og almennrar stjórnmálaumræðu í landinu og þau sem taka þátt í henni bera enga ábyrgð á þessum árásum.
Það er fráleitt að draga sömu ályktanir af þessum árásum, sem svo sannarlega eru afmörkuð atvik, einsdæmi og blessunarlega frávik í okkar annars friðsama samfélagi, og dregnar hafa verið af árásinni á þinghúsið í Washington, líflátshótunum sem þarlent stjórnmálafólk hefur fengið, ráðagerðum að ræna embættismönnum og drepa. Þau sem fara um með ofbeldi í Bandaríkjunum tilheyra ofbeldishreyfingu sem hefur notað hótanir, skemmdarverk, hryðjuverk, morð og ofbeldi árum og áratugum saman; hreyfing sem byggir á sannfæringu um að tiltekinn hópur hafi ætíð rétt á að beita aðra ofbeldi.
Skotárásir á flokksskrifstofur og bíl borgarstjóra eru alvarlegar á eigin forsendum, verk einfara um nótt en ekki hluti af pólitísku aðgerðum hreyfingar sem sækist eftir völdum í samfélaginu.
Fyrir skömmu notuðu hægri menn árásina á þinghúsið í Washington til að grafa undan því fólki sem tók þátt í búsáhaldabyltingunni í kjölfar bankaránanna miklu og mótmælendum almennt. Nú stíga margir fram og vilja nota þessar skotárásir til að sussa á gagnrýnendur, mótmælendur og aðra andstæðinga valdhafa og óbreytts ástands. Það er fráleitt og því fólki til skammar sem tengir þarna á milli.
Hitt er annað mál að fólk ætti að fara vel með tjáningarfrelsi sitt, nota það af afli til að gagnrýna samfélag ójöfnuðar og óréttlætis en ekki til að skemma og meiða. En við þurfum ekki skotárás á hús eða bíl til að minna okkur á þetta. Það getur aldrei verið leiðsögn að hegða sér svo í almennri umræðu að það leiði ekki til skotárása vanstillts manns um nótt.“