- Advertisement -

Skorar á Katrínu að taka málið til baka

Þorsteinn Sæmundsson:
Hver er staða ríkislögmanns, og ég er ekki að tala um persónuna heldur embættið, eftir þessa vendingar?

Hæstvirtur forsætisráðherra fór mjög vel af stað með þetta mál en einhvers staðar lagði hún lykkju á leið sína, hugsanlega vegna þess að þessi greinargerð ríkislögmanns kom fram,“ sagði Þorsteinn Sæmundsson, á Alþingi, þegar rætt var um frumvarp forsætisráðherra um heimild til að greiða bætur vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálsins.

Þorsteinn velti upp nokkrum atriðum:

„Þá spyr maður sig líka: Hver er staða ríkislögmanns, og ég er ekki að tala um persónuna heldur embættið, eftir þessa vendingar? Á það embætti von á því, ef verulega erfið álitamál koma upp, að framkvæmdarvaldið grípi fram fyrir hendurnar á því eða breyti snögglega um kúrs eða stefnu í miðju máli? Þetta er eitt atriðið. Svo þegar þessi vending er orðin í málinu kemur hæstv. forsætisráðherra með það hingað inn og hendir því í fangið á þinginu. Af hverju? Mér er það alls ekki ljóst eftir ræðu hæstv. forsætisráðherra. Hún talaði hér um einhverja sérfræðinga sem eru bæði andlits- og nafnlausir. Hugsanlega koma þeir í ljós þegar málið verður tekið til nefndar og gera þá skýrari grein fyrir því hvað liggur til grundvallar þeirri niðurstöðu sem hæstvirtur forsætisráðherra byggir það á að koma með málið inn í þingið aftur, sem er miður.“

Þú gætir haft áhuga á þessum
Katrín Jakobsdóttir.

Þorsteinn hrósaði Katrínu fyrir upphaf málsins:

„Mikið hefur verið talað um þær þjáningar og þann miska sem þeir sem sátu árum saman saklausir í varðhaldi og fangelsi þurftu að líða og þeirra aðstandendur, og það er alveg rétt. Auðvitað breytir einhver peningaupphæð engu um það út af fyrir sig. Hæstv. forsætisráðherra gerði mjög vel þegar hún baðst afsökunar á þessum málatilbúnaði strax og sýknudómur Hæstaréttar lá fyrir. Það var mjög vel gert og snöfurmannlega, af kjarki, en þess vegna megum við ekki nú á seinni stigum þessa máls gera það verra viðskiptis en áður var.“

Svo sagði hann:


Hver er réttur þessa fólks?

„Eitt er það líka sem ég verð að koma að í þessari ræðu: Mér er algjörlega ljóst að þetta mál, þetta frumvarp, fjallar um þá einstaklinga sem voru sýknaðir af Hæstarétti á sínum tíma og mér er algerlega ljóst að frumvarpið, og þetta mál allt, varðar þá og afkomendur þeirra, þjáningu þeirra, miska og sorg og þann skugga sem málið hefur varpað á allt þeirra líf. En ég verð að minnast á, þar sem ég hef fylgst með þessu máli allt frá því að þessir atburðir gerðust, að ég man ekki til þess, ég verð þá bara leiðréttur ef svo er, að nokkurn tíma hafi verið rætt um missi, miska og sorg aðstandenda Geirfinns Einarssonar og Guðmundar Einarssonar. Hafi það einhvern tímann verið gert þá skal ég glaður éta þessi orð ofan í mig, en ég man ekki til þess að það hafi verið gert. Og talandi um fórnarlömb í þessu máli þá hefur ekkert spurst til þessara manna síðan þessir atburðir urðu. Ég verð líka að viðurkenna að það hefur hleypt í mig nokkurri gremju og meira en það að einkalíf þessara manna og fjölskyldna þeirra hefur verið notað sem uppistaða í sjónvarpsmyndir og blaðagreinar. Ég hef velt þessu mikið fyrir mér og sérstaklega hefur þetta leitað á mig undanfarin dægur. Hver er réttur þessa fólks? Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því, eins og ég sagði áðan, að þetta frumvarp fjallar einungis um þá sem sýknaðir voru á sínum tíma en ég finn mig knúinn til að minnast á það fólk sem missti nákomna sem ekkert hefur spurst til í 45 ár. Að mínum dómi hefur aldrei verið rætt um það með nokkrum hætti hvort þeir aðilar þessa hörmulega máls eigi hugsanlega rétt á einhverju af hendi ríkisins, ég er ekki endilega að tala um bætur. Ekki hefur einu orði verið vikið að þessu fólki svo að ég muni til, aldrei. Það hefur aldrei verið minnst á að það hafi orðið fyrir missi. Þetta set ég bara inn hér til umhugsunar. Þessir menn eru fórnarlömb vegna þess að ekkert hefur til þeirra spurst og sannarlega hljóta þeirra nákomnustu að hafa þjáðst ósegjanlega á öllum þeim tíma sem liðinn er. Það hlýtur að vera eins og að salti sé stráð í sárin með vissu millibili þegar þetta mál hefur verið endurvakið, sérstaklega með þeim hætti sem gert hefur verið undanfarin ár.“

Hér er síðasta tilvitnunin í ræðu Þorsteins Sæmundssonar:

Ef ég mætti ráðleggja hæstvirtum forsætisráðherra myndi ég ráðleggja henni að taka þetta mál til baka aftur og leita leiða til að stjórnmálin geti fjallað um það, ekki hér heldur annars staðar, og komið þá fram með sameiginlega sýn sem víst er að allir séu sammála um. Ég held að við eigum það öll skilið, þjóðin öll.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: