- Advertisement -

Skora á stjórnvöld að sitja á sér með þessa fólksflutninga

Ég skora á stjórnvöld að sýna skynsemi, smá snert af mannúð og hætta við þessa feigðarför.

Marinó G. Njálsson skrifaði:

Samkvæmt fréttum er ætlunin að smala flóttafólki í flugvél og senda til Grikklands. Þessa fólks bíður fátt annað en búseta í einhverjum búðum fyrir flóttamenn. Búðum með þétta byggð, skert hreinlæti, illan aðbúnað og svona má halda áfram.

Mig langar að benda stjórnvöldum á nýjan vanda, sem kemur flóttamannastöðu þessa fólks lítið við, en tel mikilvægt að þau hafi í huga. Á Íslandi er kórónaveiran undir tiltölulega góðri stjórn meðan t.d. Danir, sem eru ágætlega þróuð þjóð, eru búnir að missa tökin á veirunni. Tölur yfir smitaða í Grikklandi hafa hækkað mikið á síðustu dögum og er ég nokkuð viss um, að þær tölur ná ekki til smita meðal flóttamanna. Hugsanlega er það í Grikklandi, eins og á Íslandi, að smit meðal útlendinga teljast ekki til innanlandssmita.

En minn punktur: Það er algjörlega út í hött, að ætla að senda stóra hópa fólks, sem hafnað hefur verið landsvist á Íslandi, til Grikklands meðan kórónufaraldurinn gengur yfir. Þetta fólk býr við þokkalegt öryggi hér á landi um að smitast ekki af veirunni og smitist það, þá fái það viðeigandi læknisaðstoð. Grikkir eiga í vandræðum með sjálfa sig, hvað þá allan þann fjölda flóttamanna sem þar er. Ég skora því á stjórnvöld að sitja á sér með þessa fólksflutninga.

Kannski er það málið. Senda fólk til Grikklands og vona að veiran leysi vandamál Vesturlanda. Verum alveg viss um, að stingi hún sér niður í flóttamannabúðum, hvort heldur í Grikklandi eða Tyrklandi, þá mun tala látinna í Kína blikna samanborin við afföllin sem yrðu í þessum búðum. Á meðan sú hætta vofir yfir, er það meira en mannvonska að senda flóttafólkið til Grikklands.

Vissulega eru skráð tilfelli í Grikklandi, þegar þetta er skrifað, „bara“ 74. Af þeim segja fréttamiðlar að 13 þeirra megi rekja til ferðalaga til Ísrael og Egyptalands, þar sem annars vegar 39 og hins vegar 55 eru smitaðir. Einskær óheppni að þessir smituðu aðilar hafi einmitt verið í samgangi við Grikkina meðan þeir voru á ferðalagi þarna. Alveg eins og var í Danmörku í gærmorgun, þegar bara var vitað um 23 smitaða (59 skv. nýjust fréttum), þá eru óþekktir smitberar líklegast mesta ógnin í Grikklandi. Hér á landi eru örugglega óþekktir smitbera líka, en þeir eru pottþétt mun færri en í Grikklandi. Við værum því ekki bara að senda fólkið í þessa venjulegu óvissuferð til Grikklands, heldur bætist við mögulega lífshættulegar aðstæður vegna kórónuveikinnar. Ég skora á stjórnvöld að sýna skynsemi, smá snert af mannúð og hætta við þessa feigðarför.

Það má síðan bæta því við að talsmaður heilbrigðisráðherra Grikkja, „said on Thursday that Greece expected a significant rise in new cases in the coming weeks“.

Greinin birtist fyrst á Facebooksíðu Marinós.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: