- Advertisement -

Skömmin er þeirra sem nú berja sér á brjóst

Enn hefur ekkert gerst í hækkun örorkulífeyris og lækkun skerðinga eru hverfandi.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir skrifar:

Eldhúsdagsumræður, og Bjarkey Olsen VG talar um allt sem þau hafa áorkað. Enn eru öryrkjar samt fátækasta fólk Íslands, enn hefur ekkert gerst í hækkun örorkulífeyris og lækkun skerðinga eru hverfandi. Ég verð að segja að ég hafði væntingar til hennar og hennar flokks í upphafi kjörtímabilsins. Þessari stjórn sem nú hefur setið í nær þrjú ár tókst það sem engum öðrum hefur tekist: að halda örorkulífeyri svo lágum að kaupmáttur hans var enginn hvorki 2018 eða 2019, og líklegt að kaupmáttur örorkulífeyris verði neikvæður í ár.

Ríkisstjórnin afrekaði það að örorkulífeyrir er nú 80.000 kr. lægri en lágmarkslaun og meira að segja 30.000 kr. lægri en atvinnuleysisbætur. Stjórnin fer nú í sumarfrí dáldið ánægð með allt sem þau hafa áorkað og vissulega hefur eitthvað áorkast einhvers staðar. Engu að síður er allt of lár örorkulífeyrir og miklar skerðingarnar sem enn er fátækasta fólk Íslands að bera, vitnisburður ríkisstjórnarinnar um kosningaloforð sem ekki hafa verið efnd!

Ekki ásættanlegt að öryrkjum sé haldið í gríðarlegri fátækt.

Við sum sem erum sek um að hafa trúað að kosningaloforð yrðu efnd, að fátækt fólk yrði ekki látið bíða eftir réttlæti, roðnum af skömm yfir barnaskap okkar. Það að hafa trúað að fyrstu verk þessarar ágætu ríkisstjórnar yrðu að bæta kjör fatlaðs fólks, er augljóst nú okkur hinum sömu að átti ekki að efna. Hvernig getur þetta sama fólk labbað glatt og ánægt út í sumarið vitandi að í þeirra skjóli brotnaði stolt fatlað fólk þegar fátækt þess varð augljós, öllum í Kóvinu, þegar fatlað fólk gat ekki lengur farið huldu höfði milli hjálparsamtaka í þeim erindagjörðum að útvega sér og fjölskyldunni mat og nauðsynjar.

Skömmin er þeirra sem nú berja sér á brjóst, og tala um að við höfum öll verið á sama báti í Kóvinu og samfélagið allt saman tekið þátt. Ég sakna þess að ríkisstjórnin hafi ekki farið í sértækar aðgerðir til að bæta kjör öryrkja. Öryrkjar sitja ekki við sama borð og aðrir í þessu landi, öryrkjar fá aðeins brauðmola kosningaherferðanna en eru engin réttindi tryggð í sínum framfærslumálum. Aldrei er það verkefni á borði ríkisstjórnar að hækka örorkulífeyri til jafns við aðra launaþróun í landinu. Það er einfaldlega ekki ásættanlegt að öryrkjum sé haldið í gríðarlegri fátækt ár eftir ár.

Að eiga líf til jafns við aðra er einföld krafa fatlaðs fólks. Það er nefnilega þannig að þegar ríki skrifa undir mannréttindasamninga þá eiga þau líka að efna þá! Hér býr fatlað fólk sem engan hefur sér til varnar nema ríkisstjórnina hverju sinni, við óréttlæti, ójöfnuð og efnahagslegt misrétti.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: